NTC netdagar

Dagur Guðnason er nýjasta rappstjarna Akureyrar

Dagur Guðnason

Dagur Guðnason er 11 ára Akureyringur sem tók þátt í Syrpurappi Eddu bókaútgáfu. Dagur tók þátt með laginu Rappari sem hann samdi sjálfur. Þáttakendur í Syrpurappi skiluðu lögum sínum inn í desember á síðasta ári. Sérstök dómnefnd valdi svo 10 bestu lögin og var lagið Rappari þar á meðal.

Þann 27. Desember síðastliðin voru lögin birt á netinu og almenningur gat kosið um besta lagið. Dagur endaði í öðru sæti í Syrpurappi eftir kosninguna. Frábær árangur hjá þessum unga strák en samkvæmt Eddu bókaútgáfu var mjög góð þáttaka í keppninni og fjöldur allinn af textum barst þeim.

Úrslitin voru tilkynnt á verðlaunaafhendingu í Smáralind þar sem rappararnir í ÚlfurÚlfur komu meðal annars fram. Dagur fékk í verðlaun stúdíó tíma í Stúdíó Sýrland.

Dagur segist hafa byrjað að semja rapptexta þegar hann var 10 ára og að hann hafi áður samið lög sem eru ekki rapp.

„Þegar ég frétti af Syrpurappi samdi ég rapp texta fyrir keppnina. Ég lék mér með app í símanum og þá small þetta saman.“

Hann segist hafa lært margt af því að taka þátt í Syrpurappi, meðal annars að rappa hraðar og að það borgi sig að taka þátt.

Dagur hefur samið nokkra rapptexta en hann segir að fyrirmyndir hans í rappinu séu rapparar á borð við Akureyringinn KÁ-AKÁ, Birni og Herra Hnetusmjör. Uppáhalds rapplag Dags er Vinna eftir KÁ-AKÁ.

KÁ-AKÁ er listamannsnafns Halldórs Kristinns Harðarsonar. Halldór fylgdist vel með Degi í Syrpurapp keppninni og var heillaður af frammistöðu hans.

„Dagur er magnaður drengur og ótrúlega fjölhæfur, hann er akkurat týpan sem skráir sig í eitthvað svona og kýlir bara á það. Það kemur mönnum oft ansi langt, ég þekki aðeins til hans og hef fulla trú á að hann geri eitthvað gott í framtíðinni hvort sem það er rapp eða eitthvað annað. Lagið eitt og sér er mega flott, og rappið er á góðri leið og textinn er real og catchy í leiðinni. Ef mér skjátlast ekki þá stóð hann í öllu framleiðsluferlinu sjálfur og þá þarf maður hugmynda flug og drifkraft, sem honum skortir ekki. Ég vona að hann haldi bara áfram og haldi áfram að vera hann sjálfur og geri meira rapp.“

Aðspurður hvort hann sæi fyrir sér að vinna með Degi segir Halldór að það sé góður möguleiki.

„Ég væri alveg til í að skoða það, ég hef haft gaman að því að vinna með öðru tónlistarfólki og Dagur gæti alveg verið einn af þeim í framtíðinni.“

Greinin birtist upphaflega í Norðurlandi Vikublaði.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó