Ðe Lónlí Blú Bojs í Hofi

Ðe Lónlí Blú Bojs í Hofi

Næsta laugardag, 16. nóvember, verður söngleikurinn Ðe Lónlí Blú Bojs sýndur í Hofi. Einungis verður boðið upp á eina sýningu af söngleiknum hér á Akureyri.

Söngleikurinn sló í gegn í Bæjarbíói, Hafnarfirði en sagan er lauslega byggð á sögu hljómsveitarinnar Ðe Lónlí Blú Bojs. Sýningin skartar lögum frá hljómsveitinni sem allir ættu að kannast við, meðal annars Heim í Búðardal, Harðsnúna Hanna og Diggi Liggi Ló.

Þetta er einstakt tækifæri til að endurupplifa þessa ástkæru íslensku hljómsveit á sem skemmtilegasta máta. Leikhópurinn og aðstandendur sýningarinnar, ásamt leikstjóra, handritshöfundi og framleiðslustjóra, samanstendur af ungu fólki sem er nýlega útskrifað úr Verzlunarskólanum í Reykjavík.

Þau unnu einnig saman við söngleikinn Fútlúsz sem kom í Hof árið 2017. „Síðan þá hefur draumurinn alltaf verið að koma með aðra sýningu til Akureyrar í það frábæra menningarhús sem Hof er,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum sýningarinnar. Miðasala fer fram á vef Mak og hægt er að kaupa miða með því að smella hér eða í síma  450 1000.

Um sýninguna:

Söngleikurinn  Ðe Lónlí Blú Bojs  segir frá ungum drengjum, þeim Sörla, Páli og Njáli. Saman skipa þeir lítinn sönghóp með stóra drauma. Þeir koma smáskífu til úrelts umboðsmanns að nafni Þorvaldur og landa hjá honum samningi. Þar kemur Valdimar til sögu og hljómsveitin Ðe Lónlí Blú Bojs verður til. Sagan segir frá því hvernig bandið þróast þegar nýr meðlimur er skipaður inn, hvernig ástin getur flækst fyrir og hvernig frægðin getur stigið manni til höfuðs. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó