Desember mót Óðins fór fram í -8 gráðum: Óánægja með aðstöðuna

Mynd af Facebook síðu Sundfélagsins Óðins

Desembermót Óðins fór fram í gær en þar öttu kappi keppendur frá Sundfélaginu Óðni, Völsungi og Sundfélaginu Rán. Veitt voru verðlaun fyrir stigahæsta sundmann og konu í flokkunum 12 ára og yngri, 13-14 ára og 15 ára og eldri. Í yngsta flokknum voru Kristinn Viðar Tómasson og Ólöf Kristín Isakssen stigahæst, í flokknum 13-14 ára voru það Kristófer Óli Birkisson og Þura Snorradóttir og í elsta aldurshópnum voru Aron Bjarki Jónsson og Elín Kata Sigurgeirsdóttir stigahæst.

Í tilkynningu á Facebook síðu sundfélagsins segir: „Margir keppendur voru að öðlast sína fyrstu keppnisreynslu í dag og verður að segja þeim til hróss að þau stóðu sig einstaklega vel miðað við aðstæður, en það er ekki auðvelt að þurfa að læra að standa kyrr á ráspöllum í tæplega -10 stiga frosti. Við viljum þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við að koma mótinu á koppinn sem og öllum þeim sem lögðu það á sig að standa úti á bakka til þess að hvetja keppendur áfram í kuldanum.“

Áhorfendur fylgjast með mótinu

Mikil óvissa hefur verið síðustu viku um hvort mótið gæti farið fram vegna veðurs en fari frost niður í -10 gráður er ekki mögulegt að halda sundmót á Akureyri. Eina keppnislaugin á Akureyri er í útilaug í Sundlaug Akureyrar. Sundfólk í bænum hefur lengi barist fyrir því að byggð sé innanhús keppnisaðstaða fyrir sundfólk.

Erla Dögg Ólafsdóttir líkir aðstæðunum frá desembermótinu við það ef fótboltakrakkar þyrftu að keppa á malarvelli. Hún segir aðstöðuna ekki vera boðlega en krakkar sem æfa sund þurfi að æfa í útilaug í öllum veðrum auk þess sem ekki sé hægt að halda mót fari frostið niður fyrir -10 gráður.

„Krakkarnir stóðu skjálfandi úr kulda á ráspallinum þangað til ræsirinn gaf þeim merku um að stinga sér af stað og foreldrarnir stóðu vel dúðaðir á bakkanum að hvetja þau áfram.“

„Nú held ég að það sé kominn tími á að Akureyrarbær, með öll sín lífsins gæði, geri eitthvað í málunum og bæti aðstöðu sundfólks í bænum. Það er fyrir löngu kominn tími á innanhús keppnisaðstöðu hér á Akureyri,“ segir Erla.

Í yfirlýsingu sem Sundfélagið Óðinn sendi frá sér í byrjun nóvember segir að félagið hafi baris fyrir yfirbyggðri 50 metra keppnislaug frá stofnun félagsins árið 1962. Þar segir: „Jafnvel þó það geti verið hressandi inn á milli að taka æfingar í snjókomu og 5 stiga frosti þá eru það þegar til lengri tíma er litið ekki ákjosanlegar aðstæður, hvorki fyrir iðkendur né þjálfara.“

Þar er einnig talað um að  því fylgi ýmsir annmarkar að þurfa að deila æfinga- og keppnissvæði með almenningi, sem oft á tíðum finnst að sér þrengt þegar æfingar og mót á vegum félagsins standa yfir í lauginni.

„Sundfélagið mun því halda áfram að leggja áherslu á nauðsyn þess að farið verði í byggingu á 50 metra innisundlaug. Slík sundlaug myndi ekki eingöngu nýtast félaginu heldur einnig grunnskólum bæjarins þar sem núverandi aðstæður eru farnar að þrengja verulega að skólasundinu. Og ekki má gleyma því að betur færi einnig um almenning sem fengi þá að hafa Sundlaug Akureyrar út af fyrir sig,“ segir að lokum.

 

Sambíó

UMMÆLI