Gæludýr.is

,,Ég stefni alltaf á toppinn“

,,Ég stefni alltaf á toppinn“

tryggvi-snaer-hlinason-tredur

Tryggvi er illviðráðanlegur undir körfunni. Mynd: Morgunblaðið

Þórsarar eru nýliðar í Dominos deild karla sem hefst á morgun en fyrsti leikur Þórs er á föstudag þegar firnasterkt lið Stjörnunnar kemur í heimsókn í Íþróttahöllina.

Hinn 18 ára gamli Tryggvi Snær Hlinason verður í lykilhlutverki í Þórsliðinu í vetur en þessi 216 sentimetra miðherji eyddi stórum hluta sumarsins með íslenska A-landsliðinu sem vann sér sæti á EuroBasket. Hann segir þá reynslu vera ómetanlega í reynslubankann.

,,Þetta var bara snilldin ein. Það er gott að fá að berjast við þessa karla og maður lærir mikið af því. Það er mikil reynsla að fá að taka þátt í þessu. Að læra af þessum meisturum er það besta sem gat komið fyrir mig á þessum tíma.“

Tryggvi hefur vakið mikla athygli erlendis og var meðal annars orðaður við spænska stórliðið Valencia í sumar. Hann vill lítið tjá sig um þær fréttir en kveðst spenntur fyrir því að spila í efstu deild hér á landi og hefur trú á að Þórsliðið geti gert góða hluti. Hann segir undirbúninginn hafa gengið ágætlega.

,,Þetta er allt að koma. Ég er þannig lagað nýkominn inn í hópinn og við eigum eftir að aðlagast hvor öðrum betur. Ég hef fulla trú á að þegar það kemur þá náum við góðri siglingu. Ég er hæstánægður með hópinn. Við missum Drew og Elías en fáum þrjá aðra sem eru allir mjög flottir. Ég er mjög spenntur að sjá hvernig það fer.“

,,Ég er eins og ég er og ég stefni alltaf á 1.sæti“

Þórsliðinu er spáð ágætu gengi í deildinni þrátt fyrir að vera nýliðar en Tryggvi segist alltaf stefna á toppinn.

,,Markmið liðsins er að standa sig og alls ekki falla. Vonandi náum við góðu sæti. Aftur á móti er ég eins og ég er og ég stefni alltaf á 1.sæti þó ég væri svosem sáttur með 3.sætið,“ segir Tryggvi.

Leikur Þórs og Stjörnunnar hefst klukkan 18:00 á föstudagskvöld en í liði Stjörnunnar er aðalmiðherji íslenska landsliðsins, Hlynur Bæringsson. Það verður því rosalegt einvígi landsliðsmiðherjanna strax í fyrstu umferð deildarinnar.

,,Hlynur er einn svakalegasti leikmaður sem ég hef þurft að spila við og þetta verður örugglega erfiðasti leikurinn fyrir mig. Hann er með svakalega reynslu og er mjög sterkur. Mitt markmið núna er að verða betri en hann. Það er snilld að fá að spila við hann í fyrsta leik því ég er maður sem vill hoppa ofan í djúpu laugina,“ segir Tryggvi að lokum.

landslid_standandi

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta

UMMÆLI

Sambíó