Færeyjar 2024

Egill flutti 16 ára til Reykjavíkur til þess að læra leiklist- „Besta ákvörðun sem ég hef tekið“

Egill Andrason fer með hlutverk Mikaels í uppsetningu leikfélagsins Verðandi á Pétri Pan.

Egill Andrason er ungur Akureyringur sem stundar nám við leiklistarbraut FG. Egill bjó á Akureyri þar til síðasta haust þegar hann flutti suður til þess að læra leiklist þar sem engin leiklistarbraut er fyrir norðan.

Egill býr ásamt móður sinni í Reykjavík en hún ferðast mikið á milli Reykjavíkur og Akureyrar vegna vinnu. Egill segir að þrátt fyrir flutninginn úr heimabænum sé sú ákvörðun að læra leiklist sú besta sem hann hefur tekið.

„Að læra eitthvað sem ég hef svona mikinn áhuga á og lætur mig hlakka til að mæta í skólann klukkan 8 á morgnanna er frábært. Krakkar sem eru með mér hérna í leiklistinni búa sum í Mosfellsbæ og Keflavík og vakna sum klukkan 5 eða 6 á hverjum morgni til þess að mæta í skólann.“

Þörf fyrir leiklistabraut á Akureyri

Hann segir þó að það hafi alls ekki verið auðveld ákvörðun að flytja til Reykjavíkur aðeins 16 ára gamall og að það hefði sennilega ekki gerst ef að í boði hefði verið að læra leiklist á Akureyri.

„Það var mjög erfið ákvörðun að flytja og ég hefði aldrei talið það mögulegt en ég ræddi það við mömmu og pabba og þau gáfu mér leyfi. Ég gat einfaldlega ekki séð fyrir mér að læra eitthvað annað en leiklist og ég sé alls ekki eftir því að hafa flutt. Eins og ég segi er þetta besta ákvörðun lífs míns þó svo að ég sakni alls og allra fyrir norðan.“

Egill segist í þokkabót vera þakklátur að hafa möguleika á því að flytja suður og fá tækifæri til þess að láta drauma sína rætast. Fæstir jafnaldrar hans fái slík tækifæri.

„Það er engin heimavist fyrir sunnan og húsnæðis- og leigumarkaðurinn er eins og hann er. Það eru engar húsaleigubætur fyrir nemendur yngri en 18 ára, bara dreifbýlisstyrkur sem samsvarar eins mánaðar leigu í mínu tilviki. Lífið hefði verið mun auðveldara ef námið sem ég óskaði mér hefði verið nær lögheimilinu mínu.“

Hann segir að það vanti leiklistabraut fyrir norðan og að hann þekki að minnsta kosti 20 jafnaldra sína sem myndu nýta sér slíka braut í MA eða VMA.

„Ég veit að það er búið að setja upp drög að leiklistabraut á Akureyri og að allt er klárt fyrir kennslu en ekkert meira hefur svo verið gert.“

Fjölbreyttara nám en fólk gerir sér grein fyrir

Hann segir námið í leiklist mun fjölbreyttara en fólk geri sér grein fyrir. Hann segist mjög sáttur við leiklistabrautina í FG og að hún sé framkvæmd á mjög góðan hátt.

„Ég held að leiklistin hafi frábær áhrif til þess að efla metnað og vilja einstaklinga til náms. Við erum ekki bara að leika okkur allan daginn. Við erum í allskonar námsgreinum og bókalærdómi eins og íslensku, sögu, stærðfræði og sálfræði.“

„Í vetur hef ég tekið þátt í leiktu betur, spunakeppni á milli framhaldsskóla, barnaleikriti FG, sýningu í Þjóðleikhúsinu. Í augnablikinu erum við að sýna Pétur Pan.“

Stærsta og dýrasta uppsetningin frá upphafi

Egill segist mjög spenntur fyrir því að sýna Pétur Pan og að honum þyki vænt um upprunalegu söguna. Ýmsar breytingar séu þó í uppsetningunni.

„Pétur Pan er fjölskyldusöngleikur í allri sinni meiningu. Sýningin er bæði fyrir krakka, unglinga og fullorðið fólk. Þetta er stærsta og dýrasta uppsetning leikfélagsins Verðandi sem er leikfélag Fjölbrautarskólans í Garðabæ, hingað til en um 100 manns koma að sýningunni.“

„Okkur öllum þykir vænt um söguna af Pétri Pan og við erum að gera okkar besta í að vera trú upprunalegu sögunni en breytum þó ýmsu. t.d. er hægri hönd Króks kona en ekki kall og heitir Smygla en ekki Mr. Smee og í staðinn fyrir indíána eru ísfrumbyggjar. Frumsýningin var 21. febrúar og ef fólk vill fylgjast með getur það gert það á Instagram eða Snapchat undir nafninu verdandifg eða Leikfélaginu Verðandi í FG á Facebook. Miðasalan er svo á enter.is.“

Leiklistin stór hluti af lífinu

Egill segist vel geta hugsað sér að verða leikari á Akureyri  þegar hann hefur lokið námi sínu.

„Ég er ekki ákveðinn hvað ég vill gera eftir námið í Fjölbrautaskólanum. Margir vina minna stefna á nám í Listaháskólanum. Það er líka auðvitað hægt að byrja bara að taka þátt í allskonar sýningum þegar maður útskrifast eða fara út í lönd að læra. Ég sé bara til.“

„Ég gæti vel hugsað mér að vera leikari á Akureyri. Mér er rosalega annt um Samkomuhúsið og langar að sýna þar aftur. Leikhúsaðasókn á Akureyri er ekkert rosaleg og sérstaklega ekki fyrir glæný verk, það var að minnsta kosti mín upplifun en aðsóknin skiptir auðvitað ekki mestu máli.“

Egill segir að hann muni að minnsta kosti pottþétt starfa í kringum leiklistina í framtíðinni og að hún sé stór hluti af lífi hans.

„Þegar ég hugsa um framtíðina sé ég fyrir mér að leika, syngja og/eða dansa í einhverju eða skrifa sögur og handrit sjálfur. Tónlistin er líka stór hluti af lífi mínu og ég stunda einnig nám við Menntaskólann í tónlist að æfa söng.“

Greinin birtist fyrst í Norðurlandi vikublaði

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó