Prenthaus

Einar Rafn þjálfar landsliðið á snjóbrettum

Einar Rafn Stefánsson var ráðinn landsliðsþjálfari á snjóbrettum fyrir veturinn 2017/2018. Einar er 24 ára Akureyringur með gríðarlegan metnað fyrir snjóbrettaiðkun. Einar sótti nám til Malung í Dölunum í Svíþjóð en þar er menntaskóli með snjóbrettabraut sem gerir iðkendum kleift að æfa af miklum krafti samhliða námi. Þar var Einar í þrjú ár og náði góðum árangri.

Eftir námið bjó Einar ásamt kærustu sinni í Kaupamannahöfn eða þar til þau fluttu aftur heim til Íslands sumarið 2016. Einar býr nú á Akureyri ásamt kærustu og dóttur og stundar nám í vélstjórn en hefur með því verið snjóbrettaþjálfari hjá Skíðafélagi Akureyrar og verið háseti á sjó þess á milli.

Einar segir veturinn leggjast vel í sig og að spennandi verkefni séu framundan fyrir landsliðshópinn. Landsliðið var í tvær vikur í Austurríki í október ,,þar náði ég að kynnast strákunum vel og það búa margir yfir miklum hæfileikum sem ég hlakka til að vinna með og draga fram í þeim“ segir Einar í samtali við vefsíðu Skíðasambands Íslands.

Nú í morgun fór landsliðshópurinn til Austurríkis þar sem þeir munu æfa og keppa á tveimur mótum.

UMMÆLI

Sambíó