Einni með öllu á Akureyri aflýstMynd: Hilmar Friðjónsson.

Einni með öllu á Akureyri aflýst

Í ljósi nýjustu frétta af útbreiðslu Covid-19 faraldursins á Íslandi og þeirra ráðstafana sem ríkisstjórnin hyggst grípa til hefur fjölskylduhátíðinni „Einni með öllu“ á Akureyri verið aflýst en fáeinir smærri viðburðir verða leyfðir með fjöldatakmörkunum og stífum sóttvarnareglum. Fjallahlaupið Súlur Vertical fer fram enda brjóti það ekki í bága við þær fjöldatakmarkanir eða nándarreglur sem ríkisstjórnin hefur sett en ýmsir smærri hliðarviðburðir sem voru á dagskrá falla niður.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segist vera mjög uggandi yfir því hvernig faraldurinn hefur þróast síðustu vikuna og að ekki sé hægt að stefna saman þúsundum manna eins og staðan sé nú. „Við viljum allt til þess vinna að halda útbreiðslu Covid-19 í skefjum og þjóðin verður að sýna samstöðu í þessari baráttu. Við höfum gert það áður og við getum það aftur,“ segir Ásthildur Sturludóttir.

Davíð Rúnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Viðburðastofu Norðurlands og skipuleggjandi hátíðarhaldanna á Akureyri, segir að þetta séu að sjálfsögðu gríðarleg vonbrigði en að fólk verði að láta skynsemina ráða för. „Það þýðir ekki að berja hausnum við steininn og við rifum seglin fúslega í þágu almannaheilla. Það verða einhverjir smærri viðburðir á dagskránni hjá okkur en engir viðburðir sem hugsanlega draga að sér mikinn og þéttan mannfjölda. Sparitónleikar á sunnudagskvöldið koma því til að mynda ekki til greina og fjölskylduhátíðin Ein með öllu verður ekki haldin sem slík. Ég held að það sýni því allir skilning og við göngum sátt frá borði.“

UMMÆLI

Sambíó