Einstök upplifun að taka þátt í The Color Run

Einstök upplifun að taka þátt í The Color Run

The Color Run litahlaupið verður haldið í fyrsta sinn á Akureyri laugardaginn 8. júlí næstkomandi. Upphitun hefst klukkan 15 og ræst verður í hlaupið klukkan 16.

„Það var fyrir nokkrum árum sem ég rakst á þennan viðburð á netinu og það kviknaði strax hjá mér áhugi að koma með þetta til Íslands. Síðan tók við langt og strangt samningaferli við erlenda eigendur hlaupsins þar sem að Ísland var nú ekki beint á teikniborðinu hjá þeim en mér var boðið út til Kaupmannahafnar til að sjá hlaupið og hitta aðstandendur þess. Eftir það var ekki aftur snúið. Ég var alveg heillaður af þessari skemmtun sem mér þótti skemmtileg viðbót í fjölbreytta hlaupamenningu Íslendinga en þar er ekki að finna neitt í líkingu við þetta,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri The Color Run á Íslandi.

Litahlaupið var fyrst haldið í Reykjavík árið 2015. Þá komust færri að en vildu og var uppselt í hlaupið. „Það tóku 10.000 manns þátt í hlaupinu fyrsta árið og þar settum við stopp á fjölda þátttakenda því við vorum að halda þetta í fyrsta sinn og vissum ekki alveg hvaða getu hlaupaleiðin hafði hvað fjölda varðar, né heldur hversu margir komust fyrir í eftirpartýinu í Hljómskálagarðinum. Árið 2016 var aftur uppselt en þá stöðvuðum við í 12.000 þátttakendum og sáum að hlaupabrautin þoldi ekki meira en það þannig að núna í ár settum við hámarkið á 11.000 þátttakendur og þriðja árið í röð var uppselt. Það er gríðarlega góð tilfinning að finna fyrir þessum mikla áhuga landans þrjú ár í röð, sem segir okkur að fólki er greinilega að líka við þennan viðburð og er að koma líka aftur og aftur. Fyrir mörgum höfuðborgarbúum er þetta orðið árlegur viðburður í upphafi sumars,“ segir Davíð en hlaupið í sumar fór fram þann 10. júní í blíðskaparveðri í miðbæ Reykjavíkur.

Litahlaupið fer þannig fram að þátttakendur hlaupa 5km leið en þó er engin þörf á því að vera í sérstöku hlaupaformi því það er engin tímataka og flestir láta sér nægja að skokka eða labba þessa vegalengd. Það sem skiptir mestu máli er að njóta upplifunarinnar og hafa gaman að. Eftir hvern farinn kílómetra þá er farið í gegnum litahlið þar sem úðað er náttúrulegu litapúðri á þátttakendur, fyrst bláu, svo grænu, þá gulu og á endanum bleiku. Í endamarkinu keyrir svo allt um koll með stórskemmtilegu eftirpartýi og litasprengjum sem einkenna hlaupið og gleðina. „Litasprengjurnar eru stórkostlegar. Það er gaman að hlaupa brautina en litasprengjurnar í lokin eru wow-faktorinn. Alveg hreint ógleymanlegar,“ segir Davíð.

Eftir tvær vikur kemur hlaupið í fyrsta sinn til Akureyrar og er það aðstandendum hlaupsins mikil ánægja. „Á fyrsta ári komu fjölmargir frá Akureyri til að taka þátt í hlaupinu í Reykjavík og við fengum talsvert margar fyrirspurnir í kjölfarið að koma með hlaupið norður ári síðar. Við reyndum en gátum ekki vegna þess að búnaðurinn sem kemur hingað til lands þurfti að fara aftur úr landi strax að loknu hlaupi til nota í The Color Run í Svíþjóð. Í undirbúningi okkar fyrir þetta ár þá kröfðumst við þess að fá að hafa búnaðinn lengur til að geta haldið hlaupið á Akureyri og það gekk eftir.“ Búnaðurinn sem fylgir The Color Run er heilmikill og samanstendur af litahliðum, merkingum og svo að ónefndu öllu litapúðrinu. „Gámarnir sem fluttu búnaðinn í ár vógu tæplega 8 tonn með öllu. 

Nú þegar er ljóst að litahlaupið verður stærsta hlaup sem nokkurn tímann hefur verið haldið á Akureyri þar sem á þriðja þúsund manns hafa skráð sig í hlaupið. Miðasala fer fram á midi.is.

UMMÆLI

Sambíó