Múlaberg

Eitt magnaðasta og mest krefjandi tímabil á ferli okkar

Þetta tímabil byrjaði öðruvísi en hjá flestum félögum á landinu. Því rétt fyrir sumarið, í raun þegar við vorum nýbyrjaðir að undirbúa okkur fyrir komandi tímabil í Grill 66 deildinni eftir fall úr deild þeirra bestu fór af stað klofning Akureyri handboltafélags og KA. Það tók sinn toll og um tíma vissum við lítið sem ekkert hvernig framhaldið yrði. Menn sátu uppi með erfiðan valkost á höndum sér. Hvort vildu menn vera áfram hjá Akureyri eða reyna eitthvað nýtt hjá KA? Tími sameiginlegs liðs Akureyrar Handboltafélags var að renna sitt síðasta skeið og slitin orðin að veruleika. Það var því ekkert annað í boði en að byrja uppá nýtt. Ég trúi að allir hafi valið eftir bestu getu og vonandi gengu flestir sáttir frá borði.

Við sem tókum við keflinu hjá Akureyri vissum að komandi tímar yrðu krefjandi en á sama tíma ótrúlega spennandi. Ungt lið, hrátt en mjög miklir hæfileikar stóðu eftir og nú var bara að duga eða drepast. Eftir að rykið settist og stór markmið okkar fyrir komandi keppnistímabil stóðu fyrir, byrjaði loks undirbúningstímabilið okkar.

Ekki veit ég hvað við hlupum marga kílómetra eða hve mörgum lóðum var lyft en við vorum tilbúnir að gera allt sem þurfti, hvað sem er. Sverre og Diddi lögðu veginn og við fylgdum. Spenntir til að sýna öllum hvers við vorum megnugir. Stór partur af undirbúningum var samkeppnin sem myndaðist í hópnum ungu strákarnir sem komu upp mættu með læti og gáfu ekki tommu eftir. Þetta skilaði sér báðu megin því ungmennaliðið okkar átti ekkert verra tímabil en við og vildi ég ósk þeim til hamingju með gott tímabil þótt sætt hefði verið að þeir hefðu komist upp um deild og þakka þeim fyrir samkeppnina sem gerði okkur alla betri

Fyrsti leikur gegn ungmennaliði Vals setti tóninn, því fylgdi yfirgnæfandi sigur á ungmennaliði ÍBV og sterkur sigur á Mílunni. Boltinn var farinn að rúlla.

Eftir gott gengi kom að því sem allir hefðu beðið eftir. Fyrri leikur Akureyri gegn KA eftir slit. Enginn okkar hafði nokkurn tímann spilað svona leik þar sem allt var undir, við vorum bestu liðin í þessari deild. Einn leikur sem gæti ráðið úrslitum um hvort við yrðum meistarar eða ekki. Við horfðum á þennan leik þannig. Undirbúningurinn fyrir leikinn var aðeins meiri en venjulega og af skiljanlegum ástæðum. Leikurinn var spilaður og fór eins og fór (þótt honum hefði lokið með jafntefli á vellinum). Akureyri var dæmdur 10-0 ósigur eftir að við tefldum fram ólöglegum leikmanni. Súrt var það og vorum við frekar snemma tímabils komnir 1 skrefi á eftir.    Við náðum að yfirstíga tapið og nýttum við okkur þetta frekar. Sættum okkur við aðstöðuna og var þetta bara bensín á bálið til að skila annars fullkomnu tímabili fram að pásu. Annað sæti eftir áramót staðreynd.

Það var ekki sárt að sjá okkur sitja þarna og í pásunni komum við aftur saman. Settumst niður og fórum yfir það sem við trúðum að við gætum gert og þyrftum að gera til að ná nýju markmiðunum sem við höfðum sett okkur. Við vorum allir á sömu blaðsíðu, leikmenn, þjálfarar og allir þeir sem komu að þessu. Aftur fórum við af stað og þótt við hefðum klárað nokkra leiki áður en við mættum KA aftur var fókusinn alltaf þar, við vildu svara fyrir þetta klúður úr fyrri leiknum. Nú loks var komið að því og vígvöllurinn settur. Íþróttahöllin Akureyri, með sigri hér gætum við komist 3 stigum yfir KA og haldið toppsætinu sem við þráðum svo. Leikurinn var ótrúlegur, stemmingin, umgjörðin, aðdáendur og að sjálfsögðu úrslitin. Fjögurra marka sigur Akureyri handboltafélags var raunin og toppsætið tryggt. Sætur var sigurinn en menn máttu ekki taka augun af boltanum, enn var nóg eftir af leikjum og ekkert skrifað í steininn. Sigurgangan hélt áfram og vorum við komnir með fingur á bikarinn þegar við mættum Þrótt á útivelli, vægast sagt mættum við ekki. Þrátt fyrir erfitt jafntefli og mikið svekkelsi þá var þetta ennþá í okkar höndum og við vorum þakklátir fyrir það. Ekki séns að við misstígum okkur aftur.

Siðasti leikur tímabilsins þar sem allt var undir. Sigur gegn HK í höllinn myndi bara þýða eitt. Bikarinn væri okkar og markmiðinu náð. Eftir alvöru leik þar sem barist var með hjarta og hug stóðum við eftir sem sigurvegarar Grill 66 deildar karla. Það var ljóst að eftir fall úr Olís deildinni, slit gamla félagsins okkar, eitt magnaðasta og mest krefjandi tímabils á ferli okkar. Við vorum aftur mættir þangað sem við áttum heima og hefðum aldrei átt að yfirgefa. Olís deildin 2018.

Við strákarnir vitum að án allra aðdáendanna, stuðningsmanna, styrktaraðila, stjórnarinnar, sjálfboðaliða og þjálfara okkar þá hefðum við aldrei staðið uppi sem sigurvegarar. Fyrir hönd leikmanna Akureyrar viljum við þakka ykkur öllum fyrir, því þessi stuðningur er ómetanlegur.

Framhaldið er spennandi og við munum gera okkar allra besta til að fylla okkur öll stolts þegar við munum stíga á stokk í Olís-deild karla á komandi tímabili. Tilhlökkunin er strax orðin mikil og við getum ekki beðið eftir að hefja leika á ný. Stuðningurinn í vetur var ómetanlegur og við vonum innilega að hann haldi áfram. Því án ykkar væri þetta ekkert gaman.

Með fyrirfram þökkum

Leikmenn Akureyri handboltafélags

Sambíó

UMMÆLI