Ekkert blóð og engin handjárn

Fyrr í dag var greint frá því að versluninni The Viking í göngugötunni á Akureyri hefði verið lokað af lögreglu. Sigurður Guðmundsson eigandi verslunarinnar hefur nú tjáð sig um málið á Facebook síðu sinni og segir hann fréttaflutning af málinu vera aðeins of mikið af því góða.

Sjá einnig: Lögregla lokar verslun í miðbænum

Sigurður Guðmundsson

Í samtali við Kaffið.is fyrr í dag var Sigurður rólegur yfir málinu og sagði að hann myndi líklega opna aftur fyrir helgina. Sigurður segir í tilkynningu á Facebook síðu sinni að hann hafi verið í stríði í á sjötta ár við einhvern vitfirring sem hafi sett fleiri hundruð milljónir í fjárfestingar til þess að koma honum á kné. Hann hafi staðið það af sér og muni gera það áfram.

Hann setur þá út á það að fjölmiðlar kalli hann fyrrum bæjarfulltrúa en segist einungis vera verslunarmaður. Hann setur einnig út á fyrirsagnir fjölmiðla.

„Það mætti halda að sérsveitin hafi komið með alvæpni til að stöðva fíkniefnasölu eða eitthvað verra. Því fer auðvitað fjarri. Ekkert blóð lak á gólfum og ekki sást blika í handjárn. Svo eru birtar myndir af manni spikfeitum og sællegum. Gerið það fyrir mig finnið betri myndir, ég er ekki svona feitur í dag,“ segir Sigurður.

Hann segir að það sé sérstakt að lenda í svona aðstæðum verandi á Akureyri og biðlar til fólks að tala við hann til að fá svör í stað þess að slúðra. Þá segir hann málið snúast um ógreidd opinber gjöld.

Facebook uppfærslu Sigurðar má sjá í heild sinni hér að neðan:

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó