Ekkert lát á jarðskjálftahrinunni

Ekkert lát á jarðskjálftahrinunni

Ekkert lát er á jarðskjálftahrinunni sem hófst um hádegi á föstudag en sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar hefur mælt tæplega 2000 jarðskálfta á svæðinu, þar af rúmlega 600 frá miðnætti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Þar segir: Rúmlega 70 af þessum jarðskjálftum hafa mælst yfir M3. Stærsti skjálftinn sem af er af þessari hrinu mældist M5,6 kl.19:26 á laugardagskvöld.

Jarðskjálftarnir eru áfram á svipuðum slóðum og í gær . Klukkan 11:25 í dag varð skjálfti af stærð M4,0 og hafa borist tilkynningar að hann hafi fundist á Siglufirði og Akureyri. Klukkan 02:50 varð skjálfti af stærð M4,3 og honum fylgdi annar M3,5 að stærð. Veðurstofunnu bárust tilkynningar um að skjálftinn í nótt hafi fundist í Eyjafirði og á Ólafsfirði og Siglufirði. Stærri skjálftar í þessari hrinu hafa fundist víða um landið. Ef þú hefur fundið fyrir jarðaskjálfta getur þú sent Veðurstofunni tilkynningu hér https://skraning.vedur.is/skra/jardskjalfta/

Miðað við fyrri skjálftahrinur á þessu svæði má búast við því að þessi hrina haldi áfram næstu daga. Í hrinunni 2012 mældust 6 skjálftar yfir 5 að stærð. Í hrinunni sem nú gengur yfir hafa þegar mælst tveir skjálftar yfir 5 að stærð og ekki er hægt að útiloka að þeir verði fleiri. Sagan geymir að svona hrinur geti verið undanfari stærri skjálfta en í flestum tilfellum fjara þær út með tímanum án stærri skjálfta en nú þegar hafa orðið.

Talsvert er um tilkynningar um grjóthrun á Tröllaskaga og Flateyjarskaga en einnig hafa borist tilkynningar um hrun í Málmey. Eins var tilkynnt um rafmagnsleysi í Kelduhverfi eftir seinni skjálftann. Engar tilkynningar hafa borist um alvarleg tjón eða slys vegna skjálftanna stóru í gær.

Talsverð hætta er á grjóthruni og skriðum úr bröttum hlíðum í jarðskjáltahrinum sem þessum. Þegar nokkrir stórir skjálftar verða hver á eftir öðrum eins og gerst hefur í þessari hrinu, þá aukast líkur á grjóthruni og því að stærri skriður fari af stað í óstöðugum hlíðum. Einnig getur skapast hætta á snjóhengjuhruni.

Það er mikilvægt að þeir sem eru á ferðinni á fjöllum og í brattlendi séu meðvitaðir um hrun- og skriðuhættu. Það er því ekki hægt að mæla með því að fólk sé mikið til fjalla á meðan jarðskjálftahrina er í gangi.

Einnig þarf að sýna varúð við akstur um vegi sem eru undir bröttum hlíðum á þessu svæði.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hvetja fólk sem býr á þekktum jarðskjálftasvæðum til þess að gera viðeigandi ráðstafanir vegna jarðskjálfta.

Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra (www.almannavarnir.is) má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr tjóni og/eða slysum í jarðskjálfta, bæði á heimilum og vinnustöðum, sjá hér https://www.almannavarnir.is/…/ja…/varnir-gegn-jardskjalfta/

UMMÆLI

Sambíó