Intersand MaxCare 12 kg | Gæludýr.is

Ekki allir sem fá að horfa í augun á Helga Björns

Sindri Snær Konráðsson er 20 ára Akureyringur sem hefur vakið athygli í vetur fyrir söng og leiklist. Sindri er nemi á listnámsbraut í VMA og meðfram skóla syngur hann mikið, leikur og hefur einnig prófað leikstjórn. Sindri stóð uppi sem sigurvegari í söngkeppni VMA, Sturtuhausnum, um daginn og er þessa stundina að leika í sýningunni Mér er fokking drullusama. Kaffið.is fékk Sindra í spjall um lífið, sönginn og leiklistina.

Sindri söng lagið Exit Music með Radiohead og sigraði söngkeppni VMA.

Ég hef verið að syngja frá því ég man eftir mér, ég byrjaði hinsvegar ekki að einhverju viti fyrr en ég var 16 ára og söng þá í 10. bekkjarleikriti í Síðuskóla. Leiklistin kom mun fyrr inn en tónlistin, ég lék í mínu fyrsta leikriti árið 2003, líka í Síðuskóla, þar vaknaði leiklistaáhuginn fyrst.“ Sindri lék í sínu fyrsta leikriti utan Síðuskóla árið 2013, það var leikritið Tjaldið þar sem Sindri lék undir stjórn Péturs Guð og Jokku. Það var upphafið af einhverju nýju fyrir mér. Síðan þá hef ég leikið í 12 leikritum. Þar má helst nefna Fiðlarinn á þakinu þar sem ég lék Motel klæðskera, Litla hryllingsbúðin þar sem ég var Baldur Krelborn og síðast en alls ekki síst Bjart með köflum þar sem ég fór með hlutverk Nonna litla.“

Sindri eftir leiksýningu af Litlu hryllingsbúðinni

Sindri sigraði Sturtuhausinn söngkeppni VMA á dögunum og segir hann það vera sitt stærsta afrek hingað til tengt söngnum. Ég tók þátt í þessari keppni með því hugarfari að vera með, njóta mín og hafa gaman. Það gekk allt eftir, þangað til að ég steig af sviðinu. Þá kom upp sá Sindri sem kannski hættulega margir þekkja, sem sagt Sindri sem getur ekki tekið þátt í keppni bara til að vera með. En tilfinningin var meiriháttar, sérstaklega vegna þess að það voru svo margir glæsilegir keppendur sem hefðu allt eins getað unnið.“

Einnig var alls ekki leiðinlegt að syngja fyrir framan fulla höll á Árshátíð Akureyrarbæjar árið 2016, svo kemur Voice ævintýrið einnig sterkt inn. Það var ómetanleg reynsla. Á stuttum tíma lærði ég svo margt. Það eru ekki allir sem fá að horfa í augun á Helga Björns og fá góð ráð sem tengjast söng og sviðsframkomu.“

Úr söngleiknum Bjart með köflum

Sindri er svo sannarlega með nóg á sinni könnu en í vetur stofnaði hann einnig hljómsveit ásamt fjórum öðrum drengjum frá Akureyri. Hljómsveitin Kraðak hefur nú þegar gefið út tvö lög og Sindri segir að meira efni sé í vinnslu. Kraðak varð til í aftursæti í bíl einhverstaðar rétt fyrir utan Akureyri þar sem ég og Haukur Sindri gítarleikari Kraðak og meðstofnandi bandsins vorum að tala um tónlist. Við komumst að þeirri niðurstöðu að við höfðum mikinn áhuga á tónlistarpælingum hvors annars og ég ákvað að segja við hann „Það væri synd ef við stofnum ekki hljómsveit saman“. Við stefnum alla leið sem band og einstaklingar þannig metnaðurinn er mikill í okkar herbúðum.“

Hljómsveitin Kraðak

„Mér finnst skemmtilegast að syngja íslensk dægurlög og skemmtilegt rokk. Ég er alæta þegar kemur að tónlist. Gamla góða rokkið kemur helst uppí hugan ef maður nefnir einhvern spes tónlistarstíl, Gorillaz er bandið sem stendur uppúr hinsvegar þrátt fyrir að ég eigi sirka 10 uppáhalds hljómsveitir alveg frá Rammstein niður í Radiohead.“

En hvert er framhaldið hjá þessum unga og efnilega pilti? Framhaldið hjá mér er einfaldlega bara að halda áfram í þessu skemmtilega harki sem þessi bransi er á Íslandi. Vona að ég nái bara að njóta mín allan þann tíma sem ég leitast eftir árangri og frama. Annars er ég að fara að gefa út bók um hvernig maður á að sjá um og rækta gúmmítré. Tónlist er pottþétt eitthvað sem ég ætla að leggja fyrir mig í framtíðinni. Þetta er mesta útrás sem maður getur fengið og það skemmtilegsta sem ég geri ásamt leiklist. Framtíð mín í leiklist er pínu óljós þar sem hugur minn liggur pínu milli tónlistar og leiklistar. Leiklistin er hinsvegar eitthvað sem ég kem til með að stunda allt mitt líf og vonandi hafa hana sem atvinnu ef ég vel mér leiklist sem fag númer eitt. Að lokum verð ég að leysa frá, til þess að ég fái ekki samviskubit. Nei, ég er ekki að fara að gefa út bók um gúmmítré.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó