Heildarfjöldi frjókorna sem mældist á Akureyri í júní er sá mesti sem hefur mælst í bænum frá árinu 2005. Flest fjókornanna voru birkifrjó en þau mældust með því mesta sem hefur mælst frá því að mælingar hófust. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Náttúrufræðistofnun Íslands.
Fjöldi frjókorna á Akureyri var undir meðallagi í apríl og maí en vorið var sólríkt, kalt og þurrt um allt land og tók gróður seint við sér. Það var áfram kalt í byrjun júní en það virðist ekki hafa komið að sök.
Frjótíma birkis er lokið en aðalfrjótími grasa er í júlí og ágúst samkvæmt Náttúrufræðistofnun Íslands. Frjókorn dreifast mest þegar veður er hlýtt og þurrt og í smá golu. Náttúrufræðistofnun ráðleggur þeim sem hafa frjókornaofnæmi að þurrka þvott inni, sofa með lokaðan glugga og slá gras fyrir blómgun svo ekki myndist frjókorn.
UMMÆLI