Ekki hata – ný herferð frá HeForShe

ekki-hata-banner
Í dag var nýrri herferð, Ekki hata,  hleypt af stokkunum fyrir HeForShe af UN Women Íslandi. Markmið herferðarinnar er að hvetja fólk til þess að skrá sig á heforshe.is og þar með skuldbinda sig til að berjast gegn netníð sem og að tileinka sér ábyrga hegðun á netinu. Að ekki beita hatursfullri orðræðu né hóta ofbeldi.

Myndband með ljóði frá listamanninum Kött Grá Pjé er burðarefni herferðarinnar. Það sýnir hvernig gróft kynbundið ofbeldi í garð kvenna og stelpna er áberandi í spjallþráðum og kommentakerfum. Kött Grá Pjé safnaði saman grófum og rætnum athugasemdum sem hann fann í netheimum og samdi úr þeim ljóðið í myndbandinu. Ljóðið varpar ljósi á það rof sem myndast í samskiptum fólks í raunheimum og á internetinu.

Á heimasíðu HeForShe segir:

Netníð gegn konum er vaxandi samfélagsvandamál og hefur áhrif á fleiri konur en við gerum okkur grein fyrir. Það er margþætt og á sér ólíkar birtingarmyndir. Herferðin beinir sjónum fyrst og fremst að hatursfullum athugasemdum og hótunum í garð kvenna og stúlkna á netinu, stafrænu ofbeldi (dreifingu á viðkvæmum og persónulegum upplýsingum eða myndum á netinu án samþykkis þess sem efnið  snertir) og eltingum/eftirliti þegar fylgst er með þolandanum m.a. með aðstoð GPS-tækni.

Við hvetjum alla til að beita sér gegn netníð gegn konum og stelpum, og skrá sig hér.

Myndbandið má sjá hér að neðan

 

UMMÆLI