Ekki óeðlilegt þó dýrt verði að endurnýja húsnæði Listasafnsins

Ingibjörg Ólöf Isaksen

Ingibjörg Ólöf Isaksen, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar hefur svarað gagnrýni frá Gunnari Gíslasyni bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað við endurnýjun á Listasafni Akureyrar. Gunnar benti á fyrr í vikunni að 400 milljóna króna kostnaðaráætlun stefndi í að verða 600 milljónir. Gunnar gagnrýndi kostnaðinn og kallaði hann bruðl.

Ingibjörg segir í samtali við fréttastofu RÚV að ekki sé óeðlilegt þó dýrt verði að endurnýja húnæðið. Það sé löngu tímabært og að húsið sé stórt. Hún segir gagnrýni Gunnars vera einföldun. „Þegar umræðan átti sér stað við fjárhagsáætlun þá lá endanleg hönnun ekki fyrir. Og þegar hún kom og kostnaðaráætlun lá fyrir, þá sáum við fram á það að þetta yrði töluvert dýrara.“ Hún talar einnig um að margt sé ábótavant í stóra húsinu og uppsafnað viðhald til margra ára komi inn í kostnað. Brunavarnir séu í ólagi, vatns- og raflagnir, aðgengi fatlaðra og margt fleira.

Ingibjörg segir einnig að þetta verði góð viðbót við það gróskumikla starf sem er nú þegar í boði í listagilinu. Framkvæmdin muni styrkja starfsemi listasafnsins.

Nánar er fjallað um málið á vef RÚV.

Sambíó

UMMÆLI