Elska Magazine heimsækir Akureyri

Elska Magazine heimsækir Akureyri

Hinsegin tímaritið Elska Magazine hefur tilkynnt um komu sína til Akureyrar og nágrennis til þess að vinna að næstu útgáfu tímaritsins.

Tímaritið sem fjallar um lífstíl hinsegin fólks um allan heim leitar nú að fólki til þess að taka þátt í myndatökum og segja sögu sína fyrir útgáfuna.

Síðustu fjögur ár hefur Elska tímaritið komið út í tuttugu og fimm mismunandi útgáfum sem fjalla um lifnaðarhætti hinsegin fólks víða um heim. Tímaritið hefur heimsótt borgir á borð við Berlín, Los Angeles, London, Dhaka, Seoul og Bogotá.

Tímaritið einblínir á fjölbreytni og þá staðreynd að hinsegin fólk er allsstaðar. Fólkið sem hefur tekið þátt í útgáfunni er mismunandi og hafa manneskjur frá átján ára aldri upp að sjötíu og fimm ára aldri tekið þátt.

„Nafnið á tímaritinu er íslenskt orð og því ætti það ekki að koma neinum á óvart að ég vilji vinna útgáfu á Íslandi,“ segir Liam Campbell, ritstjóri og ljósmyndari blaðsins.

„Við unnum þriðju útgáfu blaðsins í Reykjavík og það var sú vinsælasta sem hefur komið út hingað til. Ég elska landið og í kjölfar vinsælda þeirrar útgáfu kom ekki annað til greina en að koma aftur til landsins. Í þetta skipti langar mér að vinna með landsbyggðinni og ég hef fulla trú á því að það verði vel heppnað og muni sýna lesendum okkar nýja og skemmtilega hlið á Íslandi.“

Elska tímaritið leitar að karlmönnum sem búa á Norðurlandi í myndatöku og til þess að skrifa stutta og persónulega sögu. Verkefnið mun eiga sér stað á milli 14. og 20. nóvember. Þeir sem hafa áhuga geta haft samband í gegnum tölvupóst á netfangið emailelskaservice@gmail.com en nánari upplýsingar um tímaritið má nálgast á vefnum www.elskamagazine.com.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó