Elsku unglingur

Hildur Eir Bolladóttir skrifar

Ég hef stundum sagt við fermingarkrakkana að ég muni vel hvernig það var að vera unglingur, um leið hef ég mætt fremur tómlegu augnaráði frá þeim því auðvitað sjá þau bara torfkofa og skinnhandrit fyrir sér þegar ég nefni mín sokkabandsár. Og það má kannski til sanns vegar færa því sennilega er meiri munur á unglingsárum mínum og þeirra en allra þeirra kynslóða sem á undan hafa gengið. Það sem skilur á milli minnar kynslóðar og þeirra  eru auðvitað snjallsímarnir og samfélagsmiðlarnir og áreitið sem þeim fylgir en líka möguleikarnir, gleymum þeim ekki. Sumir fagaðilar vilja meina að þessi tækni hafi ýtt undir kvíða og þunglyndi meðal unglinga og ég ætla hvorki að rengja það né undirstrika hér enda erum við í raun enn á byrjunarreit í notkun þessarar tækni og ekki útséð með afleiðingar hennar. Eina sem mér dettur í hug er að tilkoma samfélagsmiðlana sé svolítið eins og ef áfengi hefði verið fundið upp fyrir tíu árum og við værum búin að vera full allan þann tíma en síðan komi að því við förum öll í meðferð og þá sjáum við að það er ekki hægt að vera alltaf á netinu. Svo kannski náum við einhverju jafnvægi þegar við uppgötvum að það er ekki sniðugt að vera alltaf fullur og þá fara fleiri að nota þetta hóflega. Hver veit?

Það sem mig langar hins vegar að gera hér í þessum texta er að velta því upp hvort kvíði sé ekki alltaf nátengdur þessu aldursskeiði sem oft er nefnt gelgjuskeið. Þegar ég lít til baka finnst mér eins og sjálf hafi ég alltaf verið að gera einhver plön þegar ég var unglingur ef ekki til framtíðar þá alla vegana til næstu helgar þar sem partý og böll eða gisting hjá vinkonum  var á dagskrá og maður þurfti að hanna ákveðna atburðarrás í huganum, hverju maður ætlaði að klæðast, með hverjum maður ætlaði að vera og hvernig maður gæti svo haldið mömmu og pabba í fjarlægð frá atburðarrásinni. Mér finnst einhvern veginn að allri tilhlökkun hafi fylgt einhver kvíði um hvernig allt myndi heppnast og hvort maður kæmi vel eða asnalega út úr aðstæðunum. Mér finnst einhvern veginn núna eins og það hafi oft verið gaman á gelgjunni en ekki endilega gott. Þetta segi ég með smá trega því  í dag finnst mér nefnilega mikilvægara að lífið sé frekar gott en gaman, það kemur með aldrinum og best er auðvitað ef þetta tvennt getur farið saman, að lífið sé bæði gott og gaman.

Það er auðvitað mjög flókið að vera unglingur, það þýðir nefnilega að maður er barn sem hefur þó misst réttin til að vera  með eilífan barnaskap, maður er ekki lengur krúttlegur í augum fullorðna fólksins, þó er ekki alltaf tekið fullt mark á manni eins og fullorðnum einstakling. Mér finnst að við fullorðna fólkið þyrftum að sýna unglingum meiri samúð í þessari togstreitu, því hún er í alvörunni slítandi. Ég man eftir því að vera í 9.bekk með kjaftinn alveg lóðbeint fyrir neðan nefið, rífandi mig niður í rass við kennara sem endaði oftast með tilvísun til skólastjóra þar sem höfðað var til vitsmuna minna og ábyrgðar en vera á sama tíma ekki nógu þroskuð til að ákveða hvenær ég ætti að fara í háttinn, þá var maður rekinn í rúmið eins og fimm ára barn. Þetta þótti manni auðvitað svolítið skrýtið að vera nógu gamall til að mega ekki segja hvað sem er en samt of ungur til að ákveða háttatíma. Það er líka ljóst að sjálfsmyndin er í mótun á unglingsárum og ekki bara í einhverri saklausri og elegant mótun heldur bullandi fæðingarhríðum sem þýðir að hver dagur er átök, hver dagur er helgaður því að lifa af í heimi samanburðar, hver dagur á sér upphaf í hinum eldspúandi dreka sem kallast spegill, þar sem unglingurinn horfist í augu við ómótað andlit og veltir fyrir sér hvers vegna algóðum Guði hafi þótt það góð hugmynd að skapa fílapensla og bólur og klunnalegt nef. Og ef við sem erum fullorðin og höfum meiri áhyggjur af kosningu Trump í embætti Bandaríkjaforseta, höldum að þetta sé eitthvað léttvægt þá er ljóst að við erum bara gömul og gleymin.

Ég myndi persónulega ekki vilja verða aftur unglingur, mér fannst það erfitt, ekki síst vegna þess að ég þorði ekki að segja neinum að mér þætti það erfitt.

Þess vegna langar mig að segja við ykkur unglingar þessa lands á æskulýðsdegi Þjóðkirkjunnar: Þetta mun batna. Tíminn mun vinna með ykkur og ef þið eruð líka að glíma við kvíða, þunglyndi, adhd eða ofvirkni í ofanálag við hefðbundna hormóna þá vil ég segja við ykkur af fenginni reynslu að þegar að maður eldist með þessar raskanir þá öðlast maður meira innsæi í aðstæður sínar og veikindi sem dregur heilmikið úr vanlíðaninni, það er alveg satt, ég lofa.

Þegar maður eldist öðlast  maður líka meiri færni í að tjá líðan sína og þá vil ég líka segja við ykkur kæru krakkar að nú þegar er mjög margt fólk sem getur hjálpað ykkur að öðlast þetta innsæi, flýtt fyrir vellíðan ykkar sem getur skipt sköpum fyrir framtíð ykkar. Það eru til sálfræðingar, námsráðgjafar, félagsráðgjafar, geðlæknar, prestar og fleiri sem hægt er að tala við og munu aldrei dæma hugsanir ykkar og líðan og ef þau gera það þá er síminn hjá DV 512700. En án gríns þá er gott samtal það besta sem hægt er að gera við andlegri vanlíðan vegna þess að þegar maður talar við góða manneskju þá er eins og gluggi opnist út í bjartan sumardag, því fylgir léttir vegna þess að vanlíðanin stafar að mestu leyti af óttanum við að vera frábrugðinn öðrum og einn í vanmætti sínum, einn í sársauka sínum. Það sem fæst með skilningi góðrar manneskju sem getur og kann að hlusta er tilfinningin fyrir nánd, kærleika og umhyggju, miskunn og frelsi. Þess vegna segi ég við ykkur kæru unglingar, leitið að hlustanda, mamma og pabbi geta örugglega verið ykkur innan handar ef þið viljið tala við einhvern utan fjölskyldunnar með því að hafa samband fyrir ykkar hönd, það er ekkert flókið að hringja og panta tíma, þið getið meira að segja sent tölvupóst eða eins og sumir krakkar gera sem ég hef talað við, sent skilaboð á facebook. Allt nema að gefast upp elsku börn því þið eruð það dýrmætasta og fallegasta sem við eigum og við getum ekki lifað án ykkar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó