Emmsjé Gauti og Saint Pete sameina krafta sína í nýju lagiPétur og Gauti fluttu lagið saman á Græna hattinum í febrúar.

Emmsjé Gauti og Saint Pete sameina krafta sína í nýju lagi

Rapparinn og söngvarinn Emmsjé Gauti gaf út nýja plötu í gær. Platan ber nafnið „Fullkominn dagur til að kveikja í sér“ og er þar að finna fjölbreytta tónlist með fjölbreyttum gestalista, en bæði Björn Jörundur Friðbjörnsson og Fjallabræður koma fram með Gauta á plötunnni.

Á laginu „Lax,“ sjöunda lagi plötunnar, er þó að finna nafn sem er kunnulegt lesendum Kaffisins, en því deilir Gauti með akureyrska rapparanum Saint Pete. Um er að ræða stutta en laggóða rímnaveislu þar sem Gauti og Pétur rappa eitt vers hver. Hlustið á lagið á Spotify í spilaranum hér að neðan.

Fyrir þá sem fylgjast afar vel með íslensku rapp senunni kemur lag með þessum tveimur kannski ekki svo mikið á óvart, en þeir félagar hafa sést saman bæði á samfélagsmiðlum og uppi á sviði. Í febrúar á þessu ári hélt Emmsjé Gauti tónleika á Græna Hattinum þar sem Saint Pete kom fram og þeir spiluðu saman ókláraða útgáfu af laginu sem kom út í gær. Þá hafði Emmsjé Gauti eytt nokkrum dögum í sumarbústað í Fnjóskadal þar sem hann vann að tónlist og Saint Pete, ásamt fleiri norðlenskum röppurum, komu í heimsókn. Um það leyti var Emmsjé Gauti einmitt gestur í Stefnumót með Hörpu þætti sem hægt er að horfa á í spilaranum hér að neðan.

Hvað Saint Pete varðar þá er hann ekkert að slaka á á næstunni, en fyrsta plata hans er væntanleg þann 26. júlí næstkomandi, líkt og Kaffið greindi fyrst frá. Í samtali við Kaffið sagði hann að á þeirri plötu yrði „vel sterkur gestalisti“ og að lesendur myndu kannast við marga sem þar kæmu fram. Ætli Emmsjé Gauti verði einn þeirra?

UMMÆLI