Umfangsmiklum endurbótum á A-álmu Lundarskóla er að ljúka og var kennsluálman tekin í notkun í byrjun vikunnar. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.
„Eftir miklar framkvæmdir, sem hafa staðið síðastliðið ár, er öll aðstaða nemenda og starfsfólks eins og best verður á kosið. Kominn var tími á endurnýjun, enda eru elstu byggingarnar frá 1974. Þegar rakaskemmdir voru staðfestar í byrjun síðasta árs var ákveðið að flýta framkvæmdum sem höfðu verið áætlaðar 2022. Verkinu var skipt í tvo áfanga eftir byggingarhlutum og er þeim fyrri að langmestu leyti lokið. Framkvæmdir við B-álmu og tengigang eru hafnar og eru áætluð verklok í júní 2022.“
Í vetur mun 1.-6. bekkur vera í nýju álmunni í Lundarskóla og 7.-10. bekkur í Rósenborg. Haustið 2022 mun öll starfsemi færast í Lundarskóla að nýju sem verður þá sem nýr skóli.
Ný kennsluálma var tekin í notkun mánudaginn 23. ágúst. Í tilefni af því var bæjarstjórn, bæjarráði, fræðsluráði og umhverfis- og mannvirkjaráði Akureyrarbæjar boðið að skoða glæsilega aðstöðu. Á vef bæjarins má finna ítarlegri umfjöllun um framkvæmdirnar og fleiri myndir.
UMMÆLI