Prenthaus

Enn hleypur Halli apríl: „Tökum höndum saman og styrkjum kvennaliðin“

Enn hleypur Halli apríl: „Tökum höndum saman og styrkjum kvennaliðin“

Verkefnið „Halli hleypur apríl“ hefur gengið vonum framar og er nú innan við fjórðungur eftir. Aðalmarkmið verkefnisins er að safna áheitum og framlögum til að styrkja Þór/KA og Hamrana, knattspyrnulið kvenna á Akureyri. Verkefnið felst í því að Haraldur Ingólfsson ætlar að hlaupa 310 kílómetra í apríl, en sú vegalengd kemur til af því að stelpurnar í liðunum seldu 310 pör af sokkum í febrúar og mars. 

„Aðalatriðið er að fá stuðningsfólk og velunnara, jafnt á Akureyri sem annars staðar, til að taka höndum saman og styrkja kvennaliðin í því erfiða ástandi sem nú ríkir og líkur eru á að muni vara um nokkra hríð. Hlaupin og athyglin á þann sem hleypur eru aukaatriði til að vekja athygli á liðunum og þörfinni fyrir öflugan stuðning og sterka bakhjarla á þessum tímum,“ segir Haraldur í fréttatilkynningu.

Einum og hálfum degi á undan áætlun

Hlaupaáætlunin gerði ráð fyrir 12 kílómetrum að meðaltali á dag í sex daga og síðan einn dag í frí. Haraldur hefur gert gott betur og er nú kominn nánast einn og hálfan dag fram úr áætlun. Hann á nú um 77 kílómetra eftir af þeim 310 sem markmiðið var að hlaupa, en þróunina í hlaupunum má sjá á meðfylgjandi mynd (tekin af dagbókarsíðu hlaupsins). Haraldur hefur tekið sér frí á þriðjudögum eftir að hafa hlaupið næstu sex daga á undan, þannig að hann hleypur ekki í dag. Eftir hlaupin í gær á hann innan við fjórðung vegalengdarinnar eftir. 

Haraldur setur daglega inn myndir, myndbönd og upplýsingar á Facebook-síðu verkefnisins, „Hlauptu, Halli, hlauptu“, á dagbókarsíðuna haralduringolfsson.wordpress.com og á sína eigin Instagram-síðu, @halli_ingolfs

„Ætlunin er að klára 310 kílómetrana í hádeginu fimmtudaginn 30. apríl. Mögulega verður eitthvað smá tilstand, en þó auðvitað innan marka og reglna samkomubannsins,“ segir Haraldur.

Margar leiðir til að styrkja

Mögulegt er að styrkja liðin í gegnum þetta verkefni með ýmsum hætti og má til dæmis sjá upplýsingar og reikningsnúmer á dagbókarsíðu hlaupsins – https://haralduringolfsson.wordpress.com/styrkja-verkefnid-halli-hleypur-april/

Meðal annars er hægt að leggja beint inn á reikning hjá Haraldi, 0566-26-2777, kr. 2806632639, eða inn á reikning Styrktarfélags Þórs/KA, 0566-26-6004, kt. 6409091020. Einnig má skrá áheit á sérstakri síðu og fá reikning í heimabanka eða greiða með kreditkorti í gegnum sérstaka söfnunarsíðu, sportfunder.com/haralduringolfsson. 

Unnið er að því að útbúa bol með áletruninni „Ég hleyp fyrir stelpur“ og „310 KM“ á bakinu. Tilvitnunin er innblásin af frétt á mbl.is þegar verkefnið hófst, en þá birtist frétt undir fyrirsögninni: „Hleypur fyrir stelpur á Akureyri“. Bolirnir verða seldir til styrktar verkefninu. 

Mynd með frétt: Páll Jóhannesson

UMMÆLI

Sambíó