Er loksins komið að lokaballinu í Sjallanum?

Er loksins komið að lokaballinu í Sjallanum?

Hljómsveitin Hamrabandið spilar á balli í Sjallanum á Akureyri um verslunarmannahelgina. Bandið lofar alvöru sveitaballsstemningu á „besta ballstað veraldar”. Hamrabandið sérhæfir sig í íslenskri sveitaballatónlist og erlendum slögurum.

Hljómsveitina skipa þeir Gunnar Ernir Birgisson, Bjarki Símonarson, Valdimar Þengilsson, Jón Þór Kristjánsson, Jón Heiðar Þorvaldsson og Geir Sigurðsson.

Þrír meðlimir sveitarinnar voru mættir í Föstudagsþættinum á N4 í síðustu viku. Þar ræddu þeir um sögu hljómsveitarinnar og ballið í Sjallanum. Hamrabandið hefur verið meira og meira áberandi í ball senu Akureyrar undanfarin misseri og strákarnir segja að það sé iðulega mikil stemning á böllum þeirra.

„Það hefur verið mikið stuð hingað til, fólk fer helst ekkert af dansgólfinu þegar við erum að spila.”

Meðlimir hljómsveitirnar eiga það allir sameiginlegt að hafa spilað handbolta með Hömrunum en þaðan kemur einmitt nafn hljómsveitarinnar.

„Hugmyndin kviknaði eiginlega bara í rútu á leiðinni heim eftir leik,” segir Valdimar í Föstudagsþættinum.

Hamrabandið mun spila í Sjallanum í fyrsta skipti um verslunarmannahelgina en undanfarin ár hafa flest böll í Sjallanum verið „síðasta Sjallaballið”. Strákarnir segja að þetta verði að minnsta kosti fyrsta og síðasta Sjallaball Hamrabandsins.

Forsala er hafin í Imperial Glerártorgi og á Rakarastofu Akureyrar. Á Facebook má finna viðburðinn fyrir ballið en þar er í gangi skemmtilegur leikur þar sem hægt er að vinna miða, smelltu hér til þess að kynna þér það nánar.

UMMÆLI

Sambíó