„Er með mikið Þórs/KA hjarta og þykir vænt um þetta lið“

Knattspyrnukonan Arna Sif Ásgrímsdóttir er gengin til liðs við Íslandsmeistara Þórs/KA á nýjan leik eftir að hafa eytt síðustu árum með Val í Reykjavík og í atvinnumennsku í Svíþjóð og á Ítalíu. Arna Sif segir tilfinninguna að vera komin heim ótrúlega góða.

„Ég er mikill Akureyringur og hef saknað þess að vera hér alveg frá því að ég flutti til Svíþjóðar árið 2015. Það var alltaf planið að koma heim, spurningin var bara hvenær það yrði.“

Hún segir að sér hafi liðið mjög vel í Val og hafi bara góða hluti um það félag að segja. „Ég eignaðist frábærar vinkonur þar og fannst mjög erfitt að fara frá þeim. En núna er góður tímapunktur til þess að koma heim og finna mig aðeins. Ég er líka í krefjandi námi á Akureyri sem mig langar að geta einbeitt mér betur að. Fjarnámið var erfitt.“

Gekk ekki upp á Ítalíu
Arna Sif gekk til liðs við Verona á Ítalíu síðasta haust þar sem hún spilaði með Berglindi Björg Þorvaldsdóttur, liðsfélaga sínum úr íslenska landsliðinu og vinkonu. Arna segir að Ítalíuævintýrið hafi ekki farið eins og þær bjuggust við og að nokkurn veginn allt sem gat farið úrskeiðis hafi farið úrskeiðis.

„Það var illa komið fram við okkur og ekki staðið við neitt í samningum okkar. Í þokkabót var fótboltinn þarna ekki nógu góður. Maður hefði kannski lagt það á sig að deila rúmi með vinkonu sinni og fá ekki borgað á réttum tíma ef maður hefði verið að bæta sig í fótbolta en það var alls ekki raunin. Ég fór út til þess að bæta mig en sá mjög fljótt að þetta var ekki staðurinn til þess.“

Aðstaðan hér heima ein sú besta
Arna Sif hefur áður kynnst atvinnumennskunni í Svíþjóð þar sem dvölin var gæfuríkari.

„Ég var mjög hrifin af sænsku deildinni þegar ég var þar. Þar æfði ég með góðum leikmönnum, bætti mig og þroskaðist mikið. Á hverri æfingu var ég til dæmis að æfa með og spila á móti Lieke Martens, sem var í fyrra valin besta knattspyrnukona heims.“

Arna hefur leikið síðustu tvö tímabil með Val í Reykjavík og hún segist finna það að íslenska deildin sé sífellt að verða betri. Aðstaðan á Íslandi sé einnig frábær.

„Ég hugsa að aðstaðan hér heima sé með þeim betri í heiminum. Það kom mér á óvart hvað ítalska deildin var léleg í samanburði. Þar tíðkast líka leikaraskapur og væl sem ég hef voða litla þolinmæði fyrir.“

Liðið sem allir vilja vinna
Arna Sif var fyrirliði Þórs/KA þegar liðið varð Íslandsmeistari árið 2012. Hún segir að það hafi verið erfitt að fylgjast með því úr fjarska síðan hún yfirgaf liðið árið 2015.

„Ég er með mikið Þórs/KA hjarta og þykir mjög vænt um þetta lið. Ég óskaði því auðvitað alls hins besta og það var gaman að sjá margar ungar stelpur stíga upp síðasta sumar. Ég hugsaði fyrst að ég gat ekki unnið titilinn með Val síðasta sumar þá var gott að Þór/KA fékk hann.“

Arna segist nú staðráðin í að hjálpa liðinu að halda titlinum næsta sumar og halda svo áfram að bæta í safnið.

„Þynnkuárið svokallaða eftir titil getur verið mjög erfitt. Við lærðum það árið 2013. Það er erfiðara að verja titilinn því nú er Þór/KA liðið sem allir vilja vinna og við þurfum að vera klárar í það.“

„Persónulega finnst mér ég eiga mikið inni sem mig langar að sýna. Markmiðin mín fyrir tímabilið eru bara fyrir mig að sjá en ef allt gengur upp verður 2018 mitt besta tímabil.“

Arna skrifaði undir tveggja ára samning við Þór/KA. Hún segist vel geta séð fyrir sér að prófa atvinnumennskuna aftur eftir þann tíma.

„Þá verð ég vonandi búin með námið mitt og líkaminn í fínu standi. Ég væri alveg til í að fara aftur til Svíþjóðar eða prófa ensku deildina.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó