Gæludýr.is

Erasmus verkefni – gull sem gefur

Erasmus verkefni – gull sem gefur

Það eru ákveðin forréttindi að fá að vinna með ungdómi síns sveitarfélags, læra af þeim og leiða áfram í lífinu. Fylgja þeim yfir þeirra hindranir og fagna þeirra styrkleikum. Eitt af því sem getur verið afar krefjandi fyrir ungt fólk er að byrja í klúbb eða hóp sem samanstendur af einstaklingum sem þekkjast ekki. Standa frammi fyrir þeirri berskjöldun að þurfa að leggja sjálfa/sjálfan/sjálft sig á línuna og vona að það sem þau hafa fram á að færa verði samþykkt af hópnum. Aftur á móti, þegar það tekst vel til, þá er slík þátttaka afar gefandi jafnvel til langs tíma. 

Í félagsmiðstöðvunum á Akureyri erum við að vinna með hóp þar sem nemendur úr sjö skólum bæjarins hittast vikulega í allan vetur, þar sem áherslan til að byrja með var að kynnast og hafa gaman saman en fór svo í skipulag og undirbúning ungmennaskiptaverkefnis þar sem hópurinn hafði fengið styrk frá Erasmus. Íslenski hópurinn tók svo á móti hópi unglinga frá Litháen í viku heimsókn í febrúar þar sem allir voru saman allan tímann. Verkefni sem var í senn krefjandi, margir stigu langt út fyrir þægindarammann (aftur), en einnig afar gefandi þar sem hópurinn efldist og vináttusambönd mynduðust. Að fá tækifæri til þess að kynnast annarri menningu og sjá hvað þjóðir innan Evrópu geta í raun verið ólíkar en samt átt margt sameiginlegt er talið styrkja jákvætt viðhorf milli landa og í raun draga úr líkum á ófrið, að mati starfsfólks Erasmus. 

Það er því óhætt að segja að verkefnið sem slíkt sé fjársjóðskista full af gulli, fyrir alla. Unglingarnir efla sína félagshæfni í samskiptum við jafnaldra, sjálfstraustið eykst þegar vel gengur í samskiptunum og upplifun einstaklingsins er sú að hann tilheyri hóp og hafi þar hlutverki að gegna, enda hver eining mikilvæg fyrir hópinn. Þegar unglingur gengur frá svona verkefni með ný vinasambönd í farteskinu er gróðinn mikill, því vinir eru gull. Ef okkur tekst svo um leið að draga úr líkunum á öðrum eins ófrið og hörmungum og við sjáum í Úkraínu, þá er gróðinn orðinn svo mikill að ekki er hægt að setja verðmat á hann. 

Íslenski hópurinn er á leið til Litháens í maí og verður það lokahluti vetrarlangs verkefnis. Verkefni sem ég er afar stolt að fá að vera hluti af. Ég mæli heils hugar með að sækja um styrk hjá Erasmus og fara í svona stórt verkefni, því það er gull sem gefur. 

Anna Guðlaug Gísladóttir

Forvarna- og félagsmálaráðgjafi Akureyrar

Umsjónarmaður félagsmiðstöðvarinnar Tróju

Sambíó

UMMÆLI