Prenthaus

Eru allir hálfvitar?

Sigurður Guðmundsson skrifar

Nú ríkir fár um allt land vegna húss sem er kennt við Steinnes hér á Akureyri. Bæjaryfirvöld sett í líki Kölska sjálfs sem níðist á börnum og gamalmennum og hefur af þeim eignir með úthugsuðum bolabrögðum. Sem venja er nennir enginn gagnrýnandi að setja sig inn í málin. Meira að segja illa upplýstir bæjarfulltrúar í minnihluta sem hafa aðgang að öllum upplýsingum gefa í skyn að á bakvið þá sé farið. Ef bæjarfulltrúar hafa einhvern snefil af metnaði annað en að tryggja sér annað kjörtímabil hefðu þeir kannski reynt að fræða þá kosningabæru einstaklinga sem þeir beina orðum sínum til í stað að sá fræjum efasemdar og tortryggni. En skoðum nú aðeins málið.

Í gegnum árin hafa hús verið tekin eignarnámi sem var ekki tilfellið í þessu máli, hefur það undantekningarlaust ratað til fjölmiðla og verið mikið úr gert. Ekki var það í þessu máli enda voru aðilar báðir sáttir með kaupverð. Enginn var þvingaður til neins. Ef einhver þekkir til seljanda í þessu máli kæmi viðkomandi mjög á óvart að hann léti þvinga sig til einhvers gegn vilja hans. Það er ekki í boði. Kannski ætti einhver fyrrum nemandi hans að staðfesta það og manngerðina.

Staðreyndin er einfaldlega sú að seljandi gerði virkilega góða sölu á eign sinni á sínum tíma. Söluverð var kr. 47.000.000. sem nálgaðist tvöfalt fasteignamat á sínum tíma sem var rúmar 25 milljónir. 11 mínútur voru í hrun og aldrei betra að eiga pening en einmitt þá. Það var gerður vægast sagt frábær leigusamningur við eigendann í framhaldinu sem var um 100 þúsund krónur á mánuði samkvæmt mínum heimildum. Það telst nú bara helvíti gott leiguverð fyrir 7 herbergja hús sem telur 280 fermetra í toppstandi. Hvað þá að halda því leiguverði næstum óbreyttu í tæp 10 ár. Þessvegna er einmitt svo gott að hrauna yfir framkomu bæjarins gagnvart vesalings manninum. Skil ekki þessa umræðu og skítinn sem bærinn fær yfir sig vegna málsins. Hvernig væri að uppreikna þessar 47 milljónir til dagsins í dag og hvernig þær hafa getað ávaxtast og dregið frá leigu sem er langt undir öllu sem eðlilegt getur talist. Þú hefur ekki einu sinni getað leigt bílskúrsgarm með stífluðu klósetti í iðnaðarhverfi á eyrinni fyrir þennan pening. Þess ber ennfremur í fimmþúsundasta skipti að nefna að núverandi bæjarstjórn átti ekki aðkomu að þessum gjörningi í ársbyrjun 2008. Þá var Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri og geta þeir sem fara á Happy hour á Icelandair hótelinu spurt hana út í þetta. En hún hefur ekkert að fela í þessu frekar en nokkur í stjórnkerfi bæjarins.

Sem endranær eru svona fréttir blásnar út og dreift á samfélagsmiðlum einsog svínaskít á tún um mitt sumar.

Það allra besta í þessarri umræðu er að blanda vesalings flóttaflólki í þennan leik sem pólitíkin virðist sumstaðar ætla að nýta sér. Ef einhver nennir að setja sig inn í það hvernig þeir hlutir ganga með móttöku flóttamanna fyrir væri það ágætt. Ég ætla að vera það leiðinlegur að segja ykkur ekki frá því. Þið megið alveg hafa fyrir því sjálf. En eitt get ég samt fullyrt að leiguverðið sem Akureyrarbær fær er hærra heldur en hundrað þúsund krónur á mánuði.

Hættið svo að dreifa þessum skít. Fáviska sem sett er fram með klístruðum fingrum á lyklaborði er fólki ekki sæmandi. Viðkomandi líta bara út einsog bjánar.

Njótið norðanáttarinnar til fulls. Hún er komin til að vera.

Þessi pistill er aðsend grein.

UMMÆLI