Prenthaus

Erum við læs eða kunnum við að lesa?

Erum við læs eða kunnum við að lesa?

Læsi er lítið, einfalt orð en merkingin á bakvið það er margslungin. Augljóslega koma bækur fljótt upp í huga fólks en hugmyndin um læsi hefur breyst á undanförnum árum. Þegar læsi er skilgreint nánar verður nefnilega ljóst að læsi beinist ekki eingöngu að lestri og kannski er læsi ekki eins útbreitt í samfélaginu og margir telja. Slök læsisfærni meðal barna og unglinga hefur sannarlega verið mikið í umræðunni en við megum ekki gleyma að líta í eigin barm.  

Ekki eru allir sammála hvernig skilgreina eigi læsi en segja má að merkingin geti verið misþröng. Í þrengsta skilningi er læsi tæknilega færnin til að lesa ákveðinn fjölda orða eða atkvæða á mínútu. Í aðeins víðari skilning bætist við mikilvægi þess að skilja það sem lesið er og geta dregið ályktanir (Baldur Sigurðsson, e.d.). Á þessu stigi tölum við um einstakling sem fær um að lesa og skilja ritað mál. En miðlar upplýsinga eru ekki einungis bundnir við pappír og miðlun aðeins við tungumálið. Í nútímasamfélagi er mikilvægt að vera læs á tölvur, útvarp og aðra tækni en líka á eigið umhverfi (Baldur Sigurðsson, e.d.). Við þurfum að geta lesið og skilið upplýsingar sem við fáum í gegnum netið, útvarpsþáttinn, veðurskilyrðin, svipbrigðin frá næstu manneskju eða eigin tilfinningar svo dæmi séu tekin. Í víðari merkingu má því segja að læsi snúist um ákveðna lífsleikni og möguleikann að taka virkan þátt í samfélaginu.

Frá þessu samhengi er læsiskennsla auðsýnilega ekki aðeins bundin við fyrstu bekki grunnskóla þar sem hin tæknilega læsisfærni er þjálfuð. Umskráning og lesfimi eru kannski mikilvægur grunnur fyrir læsi en einstaklingur þarf líka að geta skilið, metið og hagnýtt sér þær upplýsingar sem hann aflar sér. Hvort sem þær koma úr bók, af launaseðil eða frá sjónvarpsfréttamanni. Læsi er sannarlega flókin færni sem þarf að þjálfa allt lífið enda tekur samfélagið stöðugt breytingum.

Það má kannski segja að við verðum aldrei læs. En við getum hins vegar alltaf verið að efla og styrkja færni okkar. Eins og með svo margt í lífinu þá felur læsi í sér ferðalag en ekki áfangastað. Spurningin er þá bara hvort þú sért á fullri ferð á þeirri vegferð eða þurfir kannski að koma þér í gang sem er sko aldrei of seint. Það getur bara verið of seint að bíða.

*The ratio of literacy to illiteracy is constant, but nowadays the illiterates can read and write*

Heimildir

Baldur Sigurðsson. (e.d.). Hvað er læsi? Lesvefurinn.www.lesvefurinn.hi.is/node/132

UMMÆLI