Eva María og Orri eru íþróttafólk SA árið 2017

Þau Eva María Karvelsdóttir og Orri Blöndal hafa verið valin íþróttafólk SA árið 2017. Eva og Orri munu því bæði  koma til greina við val á íþróttamanni Akureyrar fyrir árið 2017.

Eva og Orri áttu bæði frábært ár 2017 og voru í kjölfarið bæði valin íþróttafólk íshokkídeildar Skautafélagsins 2017 en Eva var einnig valin íshokkíkona ársins hjá Íshokkísambandi Íslands og þetta því þriðja viðurkenning hennar fyrir árið 2017.

Eva María er varnarmaður og hefur verið lykilleikmaður í liði Ásynja sem og kvennalandsliði Íslands síðastliðin ár. Árið 2017 var mjög gott hjá Evu en henni hlotnaðist sá heiður að vera valin besti varnarmaður heimsmeistaramóts kvenna sem fram fór á Akureyri síðastliðin vetur þar sem hún skoraði 2 mörk og lagði upp önnur 4 mörk í 5 leikjum. Eva María var á dögunum einnig valin íshokkíkona Íslands fyrir árið 2017.

Orri er 27 ára varnarmaður og er aðstoðarfyrirliði í liði SA Víkinga. Orri hefur spilað stórt hlutverk í liði SA Víkinga á árinu 2017 og er einn allra besti varnarmaður Íslands.

Eva og Orri voru heiðruð af Skautafélaginu í fyrsta leikhléi SA Víkinga og Bjarnarins um helgina þar sem formaður félagsins, Birna Baldursdóttir, veitti þeim verðlaunin ásamt farandsbikar og rós.

 

UMMÆLI