Prenthaus

Eyrarskokkarar UFA áberandi í LaugavegshlaupinuMynd: UFA

Eyrarskokkarar UFA áberandi í Laugavegshlaupinu

Yfir þrjátíu hlauparar úr Eyrarskokkurum UFA á Akureyri tóku þátt í Laugavegshlaupinu síðastliðinn laugardag. Þar er hlaupin 55 kílómetra leið frá Landmannalaugum í Þórsmörk. Aðstæður voru góðar bjart og fallegt veður en svolítill mótvindur á seinni hluta leiðarinnar og á vef UFA segir að mörgum hafi þótt heldur heitt þegar á leið.

Þorbergur Ingi Jónsson var annar karla í mark á 4:32:02 á eftir Bretanum Andrew Douglas sem hljóp á 4:10:36. Báðir voru þeir nokkuð frá brautarmeti Þorbergs sem er 3:59:13. Þorbergur lenti í strögli með magann og næringu á leiðinni sem dróg verulega af honum. 

Rannveig Oddsdóttir var önnur kvenna í mark á 5:09:55 á eftir Andreu Kolbeinsdóttur sem bætti brautarmet Rannveigar frá í fyrra um tæpar fimm mínútur þegar hún hljóp á 4:55:49.

Nokkrir Eyrarskokkarar náðu á pall í sínum aldursflokki. Rannveig sigraði í aldursflokki 40-49 ára kvenna, Þorbergur Ingi var annar í aldursflokki 30-39 ára karla, Hulda Elma Eysteinsdóttir var þriðja í flokki 30-39 ára kvenna og Ingibjörg Hanna Jónsdóttir og Jónína Sveinbjörnsdóttir voru í fyrsta og öðru sæti í flokki 60-69 ára kvenna.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó