Fávitavalgrein fyrir unglinga á Akureyri: „Aðkallandi þörf á nýrri nálgun á fræðslu um þetta efni“

Fávitavalgrein fyrir unglinga á Akureyri: „Aðkallandi þörf á nýrri nálgun á fræðslu um þetta efni“

Sérstakur áfangi tengdur samfélagsverkefninu Fávitar verður í boði fyrir unglingastig í grunnskólum Akureyrarbæjar næsta vetur.

Áfanginn mun innihalda fræðslu um kynhneigð, getnaðarvarnir, óléttu, blæðingar, útferð, kynsjúkdóma, tékk, femínisma, karlmennsku, sambönd, sambandsslit, suð, daður, brjóst, knús, kynlíf, druslur, mörk, líkamshár, hjálpartæki, sæði, píkur, typpi, fyrsta skiptið, sjálfsfróun, sleipiefni, fullnægingar, lög um kynferðisofbeldi og hótanir og hvar aðstoð er að finna vegna ofbeldis.

Heiðar Ríkharðsson, kennari í Giljaskóla, mun sjá um áfangann en hann segir í samtali við Kaffið.is að hann hafi, eins og margir aðrir í grunnskólakerfinu, fundið fyrir aðkallandi þörf á nýrri nálgun á fræðslu um þetta efni.

„Hugmyndin með þessum áfanga er að kíkka á hvernig við hugsum um þessa hluti, tölum um þessa hluti, hvernig ungt fólk upplifir þessa hluti og reynt verður að svara spurningum þeirra sem velja áfangann. Það verður ekki farið í neitt fræðilegt nema þá ef nemendurnir spyrja um eitthvað fræðilegt,“ segir Heiðar.

Frábær nálgun Fávita

Hann segir að eftir að hafa reynt að setja saman námskeið um virðingu og mörk í kynlífi hafi hann tekið eftir því að í hvert skipti sem hann kíkti inn á Instagram-síðu Fávita hafi þar verið frábær nálgun. Snemma í ferlinu hafi hann fengið góðfúslegt leyfi Sólborgar Guðbrandsdóttur, sem stendur að baki þeirri síðu, til þess að nota efni frá henni.

„Seinna í ferlinu áttaði ég mig á því að ég myndi ekkert finna neitt betri nálgun á efnið og að Fávita-síðan væri í raun það sem kallað væri eftir. Þannig að úr varð þessi áfangi og það sem safnast hefur inn á Instagram-síðu Fávita er efnið sem unnið verður með. Vonandi fæ ég líka einhverja gesti sem eru þá með dýpri þekkingu en ég á einhverjum efnisþáttanna.“

Talað opinskátt um hlutina

Hann segir að umgjörðin um áfangann verði mjög opin til þess að geta dansað eftir áhuga og forvitni þeirra nemenda sem mæta.

„Þetta á að reyna á en fyrst og fremst vera skemmtilegt og upplýsandi. Það er alveg rosalega margt sem hægt er að taka fyrir og því þarf eitthvað að velja og hafna en ég læt það svolítið í hendurnar á krökkunum. Við þurfum að opna þessa umræðu, við verðum að geta talað um typpi, píkur, sjálfsfróun, kynhneigðir og alla þessa hluti opinskátt til að vaxa. Margir upplifa drulluerfiða hluti tengda kynlífi og tilhugalífi eða vegna skorts á kynlífi og tilhugalífi. Á þessum aldri eru þau forvitin og viljum við ekki öll að þeim líði vel í eigin skinni og muni njóta kynlífs þegar þau fá áhuga á því,“ segir Heiðar að lokum.

Þakklát kennurum sem láta sig málið varða

Sólborg Guðbrandsdóttir, umsjónarmaður Fávita, lýsti yfir ánægju sinni með áfangann á Instagram í vikunni.

„Eitt skref í einu yndin mín. Við bíðum ekki eftir breytingum á kerfinu – við látum þær gerast. Takk kennarar sem láta sig málin varða, ég verð ykkur alltaf þakklát. Góða skemmtun í haust Akureyringar,“ skrifaði hún í færslu á Instagram-síðu Fávita.

https://www.instagram.com/p/CAFqHa2gmxh/?utm_source=ig_web_copy_link
Sambíó

UMMÆLI