Félag eldri borgara skorar á Akureyrarbæ að leysa skort á húsnæði fyrir tómstundarstarf

Félag eldri borgara skorar á Akureyrarbæ að leysa skort á húsnæði fyrir tómstundarstarf

Aðalfundur félagsins Félags eldri borgara á Akureyri  var haldinn þegar 8. júní 2021. Í upphafi fundarins undirrituðu Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og Hallgrímur Gíslason, formaður EBAK, samstarfssamning um framhaldandi leigufrítt húsnæði fyrir félagið að Bugðusíðu 1 og áframhald á öflugu félags- og tómstundastarfi í samvinnu beggja aðila. Samninginn má lesa á heimasíðu félagsins ebak.is.

Á fundinum voru samþykktar tvær ályktanir sem stjórn félagsins bar fram. Skorað var á Akureyrarbæ að hefja sem fyrst vinnu við að leysa skort á húsnæði fyrir félags- og tómstundastarf eldri borgara bæjarins.

„Núverandi húsnæði félagsmiðstöðvanna nægir engan veginn til að sinna því sem skyldi. Með áskorun þessarri vill fundurinn hvetja bæjaryfirvöld til dáða svo aðstaðan hér verði á hverjum tíma sambærileg við það sem gerist hjá öðrum sveitarfélögum af svipaðri stærð,“ segir í ályktun.

Þa var því fagnað að vinna við gerð aðgerðaáætlunar fyrir eldri borgara sé hafin og að heilsuefling verði tekin fyrir í fyrsta áfanga.

Greinargerð:

Þegar Félag eldri borgara flutti starfsemi sína í Bugðusíðu 1 árið 2005 þótti húsnæðið of lítið og hafa engar breytingar verið gerðar á því síðan. Salurinn þar nægir engan veginn fyrir ýmsa viðburði sem fara fram á vegum félagsins og hindra þrengslin mjög það öfluga starf sem EBAK vill sinna í samvinnu við Akureyrarbæ. Þá skortir tilfinnanlega misstór rými til að geta verið með  margháttaða starfsemi á vegum félagsins og bæjarins á sama tíma. Má þar nefna námskeiðahald, kynningar, hreyfingu og annars konar tómstundaiðju og félagsstarf.

Árið 2005 voru íbúar á Akureyri 60 ára og eldri 2.669 eða 16,11% bæjarbúa. 1. janúar 2021 taldi þessi hópur 4.172 einstaklinga eða 21,71% bæjarbúa. Samkvæmt mannfjöldaspám stækkar þessi hópur hlutfallslega mjög mikið á næstu árum. Nauðsynlegt er því að hugsa til lengri tíma þegar farið verður í framkvæmdir.

Nauðsynlegt er að ráða starfsmann sem fyrst til að hafa umsjón með heilsueflingarverkefni og vera í samstarfi við íþróttafélögin og aðra samstarfsaðila við að koma því af stað. Samhliða því þarf að koma á frístundastyrk til að ná til þeirra sem helst þarf að hvetja til virkrar þátttöku. Slíkur styrkur er ódýr forvörn sem skilar sér margfalt til baka.Aðgerðaáætlun á að vera hvatning til heilsueflingar í víðtækum skilningi og ná því til hreyfingar, andlegs og líkamlegs heilsufars, en einnig til mataræðis með áherslu á næringargildi og verðlagningar á mat, sem er heimsendur eða til sölu í félagsmiðstöðvunum.Hún þarf að vera hvatning til þátttöku í margþættu tómstundastarfi til að efla orkuna sem býr í hverjum og einum, virkja sköpunarmátt og auka vellíðan eintaklinganna.

Aðgerðaáætlunin þarf að ná til heimaþjónustu og annarrar þjónustu á vegum bæjarins og stuðla að góðu samstarfi við aðra sem veita slíka þjónustu.Í henni þarf að vera ákvæði til að tryggja að greinargóðar upplýsingar verði veittar um hvert og hvernig á að leita að og sækja um þjónustu. Í áætluninni þurfa að vera ákvæði um búsetu og fjölbreytta búsetumöguleika. Hún þarf að vera gerð með fjölgun eldri borgara á komandi árum í huga.

Stjórn EBAK mun fylgjast með gerð áætlunarinnar og væntir þess að hratt og fagmannlega verði staðið að verki. Aðalfundurinn skorar á bæjarstjórn að vinna að heildarstefnu í málefnum eldri borgara og að sýna frumkvæði og metnað í þjónustu við þá.

Sambíó

UMMÆLI