beint flug til Færeyja

Ferðalangur, fuglahræða….

Ferðalangur, fuglahræða….

„Hvað ætlar þú að verða væni, voða ertu orðinn stór. Allir spyrja einum rómi, eilíft hljómar þessi kór“…..sungu Hrekkjusvínin fyrir margt löngu. „Hrekkjusvín“,segi ég eins og það sé bara augljóst hver Hrekkjusvínin eru, eða voru!  Þau voru samstarfsverkefni hljómsveitanna Spilverks þjóðanna og Þokkabótar, já og lagið sem geymir þetta textabrot kom út á hljómplötu árið 1977 eða fyrir 35 árum síðan. Textarnir eru þó í fullu gildi, enda lífið skoðað frá sjónarhorni barna og það er klassískt.

Hrekkjusvínin gerðu góðlátlegt grín að þessari sígildu spurningu, „hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðinn stór?“ Og ekki að furða. Því spurningin var ekki, hvað blessuð börnin langaði til að gera  heldur hvað þau ætluðu að verða. Augljósasta og skynsamlegasta svarið er auðvitað að segja „eldri“ eða kannski „gamall“ en það var kannski ekki það sem var verið að fiska eftir. Nei leitað var að því hvaða metnað barnið hefði nú fyrir því að stefna hátt í tilverunni, stefna á ævilangan starfsferil sem skilgreindi einstaklinginn helst yfir gröf og dauða. Enda má finna á legsteinum fólks eða í það minnsta karlmanna, áletranir, s.s. Jón Jónsson fiskmatsmaður, rafveitustjóri, lögmaður eða vélstjóri. Konur áttu sér eðlilegan starfsferil frá náttúrunnar hendi og þurfti sjaldnast að skilgreina þær frekar, kannski helst að þær urðu hjúkrunarkonur eða talsímaverðir. Blessuð börnin þurftu að byrja snemma að hugleiða svör við þessari stóru og mikilvægu spurningu en eitt og annað skipti þó meira máli en bara vilji þeirra. Þau gátu alveg svarað að þau ætluðu að verða löggur eða strætóbílstjórar varð sko ekki alltaf að veruleika. Það skipti máli hver staða og stétt foreldranna var, -átti barnið að taka við úrsmíðaverkstæðinu hans pabba eða var möguleiki á að barnið hefði gáfur til að mennta sig, taka landspróf og læra vélritun eða jafnvel (hamingjan hjálpi mér) að fara í háskóla?

Þessi skilgreining á fólki, samkvæmt ævistarfinu er líklega til marks um það hversu stóru hlutverki vinnan gegndi í lífi fólks. Menn unnu langan vinnudag og frístundir eða fjölskylda höfðu engan forgang,- vinnan var allt. Á legsteina var aldrei ritað, „Jón Jónsson, fyndinn náungi sem lék við barnabörninn, eða „vænsti karl en svolítið blautur“. Reyndar er held ég þessi siður með að tiltaka ævistarf á legsteininn líklega barn síns tíma og fólk er vonandi  hætt  að spá í það eftir andlátið.

Enda er þetta með æviferilinn einnig barn síns tíma. Ungt fólk er tilbúið að breyta um starf eftir því hvað þjónar þeirra hagsmunum best sem er að mínu mati mun heilbrigðara viðhorf heldur en að binda sig í ævilöngu hlutverki sem svo kannski passar ekkert sérstaklega vel í raun. Ungur maður sagði við mig um daginn þegar við ræddum nýja starfið hans, „nú ef mér líkar þetta ekki þá bara hætti ég, -ég er ekki tré“. Það er mikið til í því, við erum ekki með rætur og við getum hreyft okkur til.

Ég er hjúkrunarfræðingur að mennt og að viðhorfi, það er í raun ævihlutverk. Það þýðir hinsvegar ekki að ég ætli mé,r eða að það henti mér, að vinna alltaf við hjúkrun. Ég get gert ýmislegt annað og mig langar að prófa ýmislegt annað. Ég spyr mig enn hvað ég ætli að verða þegar ég er orðin stór og líklega geri ég það ævina út eða ég vona það í það minnsta. Það að hafa unnið í öllum skólafríum og með námi frá unga aldri eins og mín kynslóð gerði, bjó til ótrúlega fjölbreyttan vinnuferil, allt frá því að búa til kassettur og sópa götur til þess að annast aldraða og búa til útvarpsþætti og syngja með hljómsveit.

Hef ég þó aldrei unnið í fiski eða verið í sveit og vantar þar með reynslu í undirstöðuatvinnuvegunum, næ því kannski ekki héðan af. Ekkert verbúðarlíf eða kaupakonuævintýri í minningabankanum mínum en heilmikið af öðru.

En ennþá er ég ekki orðin nægilega stór til að taka þessa loka, risastóru og örlagaríku ákvörðun um framtíðina. Hvað ætla ég að verða þegar ég verð stór?

Ég hinsvegar fann mér fyrirmynd á dögunum þegar ég horfði á þátt með fjöllistakonunni Laurie Anderson sem er allmiklu eldri en ég eða 75 ára gömul en er enn að finna nýja fleti í listsköpun, ennþá forvitin um veröldina og ennþá með ofur-sveigjanlegan huga. Hún er „avant-garde“listamaður, tónskáld, tónlistarkona og kvikmyndagerðarkona, vinnur að gjörningalist, popptónlist og margmiðlunarverkefnum auk þess að vera menntuð í fiðluleik og höggmyndalist. Ég veit ekki hvort hún hefur verið í sveit eða unnið í fiski en það kæmi mér ekki á óvart.

Hún er með frjóan og skapandi huga og það lýsir úr augunum hennar, og engum dylst áhuginn á tilverunni.

Mér finnst að minnsta kosti gott framtíðarplan að verða eldri en ég er, verða alltaf forvitin, laus við fordóma og til í að skoða nýja hluti og ný sjónarmið. Ef mér tekst það þá má gjarna bæta því við á legsteininn,- „Inga Dagný Eydal, gat ekki ákveðið hvað hún vildi verða en hún var alltaf forvitin um lífið“

Svo get ég svarað spurningunni Hrekkjusvína með þeirra eigin lokaorðum „Almáttugur en sú mæða, ég get ekki svarað því. Ferðalangur, fuglahræða, flibbanaut í sumarfrí!“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó