NTC netdagar

Fimm milljónir króna í nýjan listsjóð á Akureyri

Fimm milljónir króna í nýjan listsjóð á Akureyri

Í síðustu viku var undirritað í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri samkomulag um stofnun listsjóðsins Verðandi.

Megintilgangur sjóðsins er að styrkja listafólk til að nýta Menningarhúsið Hof og Samkomuhúsið sem vettvang fyrir listsköpun sína. Listsjóðurinn á að auðvelda ungu listafólki og þeim sem starfa utan stofnana að nýta sér þá fyrirmyndaraðstöðu sem Hof og Samkomuhúsið hafa upp á að bjóða, stuðla að fjölbreytileika í listviðburðum í húsakynnunum og nýta þá möguleika sem þar eru fyrir fjölbreytta viðburði.

Samkomulagið undirrituðu Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Þórleifur Stefán Björnsson, formaður stjórnar Menningarfélagsins Hofs, og Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar.

Nú þegar hefur verið opnað fyrir umsóknir á heimasíðu Menningarfélagsins Hofs, www.mak.is/is/verdandi, þar sem hægt er að sækja um styrki vegna viðburða sem fram fara í Menningarhúsinu Hofi á tímabilinu 15. janúar til 31. ágúst 2019. Umsóknarfrestur er til miðnættis 2. desember næstkomandi en úthlutað verður úr sjóðnum formlega 9. desember.

Ásthildur Sturludóttir, sem tók við starfi bæjarstjóra á Akureyri núna í haust, segir gaman að sjá í hversu miklum blóma menningarlífið í bænum standi en að menn geti alltaf á sig blómum bætt. „Við sláum tvær flugur í einu höggi með þessu samkomulagi. Ungt fólk með mikinn sköpunarkraft og sköpunarþörf fær aðgang að fyrirtaks aðstöðu og um leið verður nýtingin á Hofi og Samkomuhúsinu ennþá betri.“

„Við fögnum stofnun sjóðsins en það hefur lengi verið draumur okkar að hann verði til,“ segir Þórleifur Stefán Björnsson formaður stjórnar Menningarfélags Hofs. „Stofnaðilar samþykktu einróma á síðasta aðalfundi að ganga til samstarfs við Akureyrarkaupstað um stofnun þessa listsjóðs.“

Þuríður Helga Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri MAk segist vera himinlifandi með þetta samstarf og fagnar því að geta eflt grasrótarstarf í listum með þessum hætti.

Frétt af vef Akureyrarbæjar

UMMÆLI

Sambíó