Fiskverkun í Hrísey nær sér aftur á strikLjósmynd: Ágúst Ólafsson

Fiskverkun í Hrísey nær sér aftur á strik

Fiskverkun í Hrísey er að ná sér aftur á strik eftir að húsnæði og búnaður fyrirtækisins Hrísey Seafood varð eldsvoða að bráð í maí 2020. Bruninn var eyjaskeggjum afar erfiður, enda var Hrísey Seafood stærsti vinnuveitandi í þorpinu. Nú fjórum árum árum seinna er starfsemi fyrirtækisins í nýju húsnæði farin að nálgast það sem var fyrir brunann og vinna þar fimmtán manns við fiskverkun og útgerð tveggja báta. Hrísey Seafood er því aftur orðinn stærsti vinnuveitandi í eyjunni. Þetta kemur fram í frétt ruv.is í gær.

Fyrir brunann var Hrísey Seafood með frystihús í Hrísey en í nýja húsnæðinu, sem áður var í eigu Byggðastofnunar, hefur frysting ekki verið tekin upp aftur. Í dag fer þar fram slæging, hausun og flökun. „Svo erum við að gella og klumpa.“ Þetta segir Óðinn þór Baldursson, verkstjóri hjá Hrísey Seafodd, í samtali við RÚV.

Það var um ári eftir brunann sem starfsemi fór af stað aftur, en mikil uppbygging hefur átt sér stað síðustu þrjú ár: „Við erum að byggja þetta hægt og rólega upp aftur, við náttúrulega byrjuðum bara á núlli. Já ég er að vonast til að það komi meira og við getum gert meira.“

UMMÆLI