Fjárhagsáætlun Akureyrar 2023-2026 samþykkt í bæjarstjórn

Fjárhagsáætlun Akureyrar 2023-2026 samþykkt í bæjarstjórn

Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árin 2023-2026 var lögð fram til síðari umræðu í bæjarstjórn og samþykkt þriðjudaginn 6. desember. Þetta kemur fram á vef bæjarins í dag.

Í tilkynningu bæjarins segir eftirfarandi:

Áætluð rekstrarniðurstaða samstæðunnar (A- og B-hluta) árið 2023 er jákvæð um 228 milljónir króna sem er talsverður viðsnúningur til hins betra frá fyrra ári þegar niðurstaðan var neikvæð um 624 milljónir. Jafnvægi er í rekstri sveitarfélagsins og er gert ráð fyrir enn betri afkomu til ársins 2026.

Líkt og áður fer stærstur hluti útgjalda sveitarfélagsins til fræðslu- og uppeldismála, næstdýrasti málaflokkurinn er félagsþjónusta og þar á eftir koma æskulýðs- og íþróttamál.

Samþykkt var að álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði lækki um 9,4% á milli ára og verði 0,31% af fasteignamati til að mæta auknum álögum íbúðareigenda vegna hækkandi fasteignamats. Útsvarsprósenta verður óbreytt eða 14,52% árið 2023.

Gjaldskrár hækka almennt um 7,5% vegna verðlagsþróunar en ákveðið var að halda gjaldskrá leikskóla óbreyttri til að sporna gegn auknum álögum á barnafólk sem aukin verðbólga hefur haft í för með sér. Þar er því um raunlækkun að ræða miðað við verðlag.

Áætlað er að skuldahlutfall sveitarfélagsins í árslok 2023 verði 131%. Veltufjárhlutfall samstæðunnar er áætlað 1,13 í árslok 2023. Skuldahlutfallið mun síga niður á við næstu árin og verður í árslok 2026 um 124%. Á árinu 2023 er áætlað að veltufé frá rekstri verði 4.549 milljónir kr. eða 15% af heildartekjum.

Af framkvæmdum sem fram undan eru má nefna að gert er ráð fyrir að byggðir verði tveir nýir íbúakjarnar fyrir fatlað fólk og verður reynt að flýta þeim framkvæmdum eins og kostur er. Þá er gert ráð fyrir stofnframlagi til Brynju og Bjargs vegna leiguíbúða en gert var samkomulag við Brynju húsfélag um sérstaka uppbyggingu íbúða fyrir öryrkja.

Áfram verður unnið að endurbótum á húsnæði Glerárskóla og á næstu árum eru áætlaðar um 1.100 milljónir í það verkefni. Þá er gert ráð fyrir að ganga frá skólalóð við Síðuskóla og til þess eru ætlaðar um 127 milljónir. Í endurbætur á leikskólum og nýjan leikskóla fara um 450 milljónir. Undirbúningur að byggingu nýs leikskóla hefst á árinu 2023 og er stefnt að verklokum árið 2025.

Á næsta ári er gert ráð fyrir að klára framkvæmdir í Skautahöllinni og haldið verður áfram með framkvæmdir á KA-svæðinu. Einnig er gert ráð fyrir að byggt verði upp á Þórsvæði fyrir um 360 milljónir á tímabilinu. Farið verður í staðavalsgreiningu á innisundlaug og unnið að því að færa vetraraðstöðu Golfklúbbs Akureyrar á Jaðar og losa þannig um fyrir aðrar greinar í Íþróttahöllinni. Alls er því gert ráð fyrir um 718 milljónum á næsta ári til íþróttamála og tæpum 1,5 milljarði næstu árin þar á eftir. Uppbyggingu verður einnig fram haldið á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli.

Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2023-2026, samþykkt í bæjarstjórn 6. desember 2022

Greinargerð með fjárhagsáætlun fyrir síðari umræðu í bæjarstjórn

Sambíó

UMMÆLI