Fjarlægðin gerir fjöllin grá

Ingólfur Stefánsson skrifar frá Perú:

Í gær vaknaði ég með sjö ný moskítóbit og engisprettu í lófanum. Þetta var ekki krúttleg engispretta með hatt og staf, meira svona eins og vondi kallinn í Pöddulíf. Ég átti erfitt með að sofna aftur eftir það þrátt fyrir að fjórir tímar væru í að ég myndi yfirgefa þennan stað sem ég var á og leggja af stað í 15 tíma rútuferð. Viftan sem átti að kæla herbergið yfir nóttina snerist ekki svo ég dreif mig úr svitapollinum sem hafði myndast í rúminu í kalda sturtu ásamt allskonar pöddutegundum.

Eini hreini bolurinn sem ég átti eftir var íslenska landsliðstreyjan, þar sem hvergi var hægt að þvo föt. Ég fékk því minn daglega skerf af HúH!-um á leiðinni í morgunmat sem var fiskur og hrísgrjón í 13. skipti á 3 dögum.  Ég gat allavega litið á það svoleiðis að það væri hollur og góður matur fyrir mig, en ég var samt ekki alveg viss hvort það virkaði svoleiðis ef hann fór alltaf beint í gegn um líkama minn.

Þegar  ég kom loks á rútustöðina fékk ég þær fréttir að rútuferðinni yrði seinkað um að minnsta kosti sex klukkutíma. Ég er að ferðast með Hildi kærustu minni og við tókum því að jafnaðargeði og fórum á kaffihús til að láta tímann líða. Það var auðvelt fyrir Hildi sem hafði snjallsíma með ótal sniðugum öppum til að drepa tímann. Síminn minn hafði aftur á móti ekki þolað ferðalag undanfarna mánuða og hleðslutækið á tölvunni minni hafði bráðnað nokkrum vikum áður. Kindle-inum mínum hafði verið stolið, ásamt debetkortinu mínu, þannig ég gat ekki lesið. Til allrar hamingju var fiskurinn fljótur að segja til sín og ég gat drepið tímann á klósettinu.

Eftir 6 tíma lögðum við af stað til að fá góðar fréttir á rútustöðinni. Ég var alveg kominn með nóg af þessum pödduga og skítuga stað þar sem ég var aldrei viss hverju ég væri að finna lykt af og var tilbúinn að setjast upp í notalega rútu og njóta í 15 klukkustundir. Þegar við komum á rútustöðina í annað sinn fengum við þær fréttir að frestunin yrði aðeins lengri en 6 klukkustundir. Það var búið að fresta rútuferðinni okkar um tvær vikur. Ég hef flogið með Wow-Air oftar en einu sinni og því orðin ansi vanur að ferðalögum mínum sé frestað en ég dreg línuna við 2 vikur.

Við fundum annað rútufyrirtæki sem var með rútu fyrir okkur. Fólk hafði reyndar varað okkur við því fyrirtæki, það var þekkt fyrir að dópa farþega sína og ræna verðmætum þeirra. Við þurftum samt einungis að fresta ferðinni um 13 klukkustundir ef við myndum kýla á það svo við gerðum það. Restin af deginum fór í að borða, kúka og pissa. Allir sem ég reyndi að tala við kunnu annaðhvort ekki ensku eða voru búnir að borða of mikið hass til að skilja hvað ég sagði. Mér var lofað að ég myndi kynnast fullt af skemmtilegu fólki á ferðalagi en eina fólkið sem ég hitti eru hippar sem lifa á hassi og halda að ég hafi gaman að því að hlusta á þá spila illa á flautu.

Svo eru það heimamenn sem hata þig fyrir að vera hvítur. Eðlilega. Við Íslendingar brjálumst þegar götur okkar fyllast af Kínverjum af því að þau taka margar myndir af hlutum. Hvernig haldiði að við myndum bregðast við ef að fokríkir og ungir Suður Ameríkubúar myndu fylla götur okkar og biðja um allt ódýra dótið hér á lægra verði. Óforsvaranlegt.

Þegar við mættum á rútustöðina um kvöldið, og þegar ég segi rútustöð þá meina ég 4 plaststólar, þá biðum við í þrjár klukkustundir í viðbót eftir rútunni. Við vorum ekki rænd né dópuð á leiðinni, og ekki halda að ég sé ekki þakklátur fyrir það, en rútuferðin tók 22 klukkustundir og konan fyrir framan mig lyktaði eins og spægipylsa.

Ég vildi bara láta ykkur vita hvernig dagurinn minn var.

UMMÆLI