Fjölga samþykktum umsóknum við Háskólann á Akureyri

Fjölga samþykktum umsóknum við Háskólann á Akureyri

Háskólaráð samþykkti á fundi sínum í dag að fjölga samþykktum umsóknum við Háskólann á Akureyri úr rúmlega 1.000 í allt að 1.400 fyrir komandi skólaár. Þetta kemur fram á vef HA.

Þar segir að ákvörðunin hafi verið tekin vegna stöðunnar í íslensku samfélagi og yfirlýsingar stjórnvalda um að fjármagn háskólanna verði tryggt vegna aukinnar aðsóknar. Með ákvörðuninni leggur háskólaráð traust sitt á ríkisstjórn og menntamálaráðuneytið um að standa heilshugar við yfirlýsinguna sem gefin var út 22. júní og að Háskólinn á Akureyri fái jafnframt leiðréttingu á þeim nemendaígildum sem háskólinn hefur í dag umfram greiddan nemendaígildafjölda frá stjórnvöldum.

„Með því að fjölga samþykktum umsóknum er háskólinn að koma til móts við þörf í þeim faggreinum sem hafa verið undir miklu álagi síðustu misserum. Þeim óvenjulegu aðstæðum er mætt sem nú eru uppi vegna heimsfaraldurs og þrenginga á atvinnumarkaði. Þá er aukið við námsframboð sem nýtist á sem flestum sviðum samfélagsins, líkt og í menntunarfræðum, hjúkrunarfræði, iðjuþjálfunarfræði, lögreglufræðum, líftækni, auðlindafræðum, viðskiptafræði og lögfræði,“ segir á vef HA.

„Ég er ánægður með þessa niðurstöðu og erum við jafnframt reiðubúin til frekara samtals um stækkun háskólans til lengri tíma litið, með sérstökum áherslum á nám sem kemur á móts við þarfir íslensks samfélags á tímum alheimsfaraldra og fjórðu iðnbyltingarinnar. Þar gegnir Háskólinn á Akureyri lykilhlutverki þegar kemur að aðgengi að námi um land allt óháð búsetu,“ segir Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó