Fljúgandi furðuhlutur eða njósnaflugvél yfir Akureyri árið 1934?

Fljúgandi furðuhlutur eða njósnaflugvél yfir Akureyri árið 1934?

Eftirfarandi grein birtist í Degi fimmtudaginn 9. ágúst árið 1934 undir heitinu Er undraflugvél á ferðinni?

Fimmtudaginn 2. ágúst s.l. ., um kl. 4 síðd., sást til flugvélar frá bænum Meyjarhóli á Svalbarðsströnd. Bar hana þá fyrir ofan Krossanes, og flaug hún miðhlíðis, með jafnri en fremur hægri ferð, þráðbeina stefnu til suðausturs. Veðurfar var þannig: Úrkomulaust, norðan hægur stormur, og þokubelti um miðjar hlíðar. Sást flugvélin ýmist fyrir neðan þokubeltið eða í því, en það undarlegasta var, að ekkert heyrðist til hreyfilsins, allan þennan tíma, á meðan sást til flugunnar.

Er flugvélin fór yfir Akureyrarbæ, bar hana frá Meyjarhóli, sem stendur all hátt frá sjó, skammt fyrir neðan húsið Fálkafell; en það mun miðja vegu milli Akureyrarkaupstaðar og Súlutinda; segja sjónarvottar, sem eru Tryggvi Kristjánsson, bóndinn á Meyjarhóli og dætur hans tvær, Laufey og Friðrika, að sézt hafi til flugvélarinnar í nálega 5 mínútur, frá því hún var fyrir ofan Krossanes og þar til hún hvarf í þoku, yfir Mjaðmárdal í Eyjafirði. Sá Laufey flugvélina fyrst, og hafði ekki augu af henni, fyrr en hún hvarf, þar sem fyrr greinir. Skýra sjónarvottar þannig frá flugvélinni: „Við sáum ekki greinilega lit hennar, en okkur sýndist hún vera gráleit. Hún var fjarska löng og mjó, og jafnbreið frá hliðarstýri að vængjum, er sátu nær fremst á henni. Engir bátar eða hjól voru sýnileg, er flugvélin gæti lent á“.

Sjónarvottar töldu víst, að hér væri um einhverja skemmtiferðaflugvél að ræða, og að annarstaðar frá mundi hafa sézt til ferða hennar. Átti það von á að heyra eitthvað af ferðum flugvélarinnar í útvarpinu það sama kvöld, því á Meyjarhóli eru móttökutæki. Þótti því undarlegt, að svo var eigi. Fór fólkið þá að grennslast eftir því, hvort ekki hefði sézt til hennar frá Akureyri, en blaðinu er eigi kunnugt um, að svo hafi verið. Þess skal ennfremur getið til skýringar, að hér getur ekki verið um neina missýningu að ræða, því að á meðan Flugfélag íslands hafði flugvélar í förum á undanförnum árum, segja sjónarvottar, að aldrei hafi flugvél komið eða farið frá Akureyri, svo að ekki hafi greinilega heyrzt og sézt til hennar. Allar framangreindar upplýsingar hefir blaðið fengið frá sjónarvottum.

Tveimur dögum síðar, laugardaginn 11. ágúst birtist greinarstúfurinn hér að neðan.

Við lestur greinarinnar um hina dularfullu flugvél í blaðinu á fimmtudaginn, rifjaðist það upp fyrir manni einum utan úr sveit vestan Eyjafjarðar, að hann ásamt fleira fólki hafi heyrt til flugvélar þennan sama dag, að hann hyggur, er hann starfaði að heyvinnu. Nánari fregnir mun blaðið flytja um þetta bráðlega, og einskis láta ófreistað, til að útvega upplýsingar um þetta einkennilega mál. Væri blaðinu þökk á því, ef fleiri hefðu orðið varir við umrædda flugvél, að þeir tilkynntu því það hið fyrsta.

Grenndargralinu er ekki kunnugt um frekari fréttir af meintu loftfari yfir Akureyri í ágústmánuði árið 1934.

Þessi pistill birtist upphaflega á vef Grenndargralsins www.grenndargral.is.

Sambíó

UMMÆLI