Hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel mun hefja vetrarflug á milli Amsterdam og Akureyrar á ný eftir áramót. Fyrsta flugið verður 11. febrúar 2022. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Voigt Travel bauð upp á flug á milli Akureyrar og Hollands áður en kórónuveirufaraldurinn skall á en síðast var flogið á milli í febrúar og mars árið 2020.
Hjalti Þórarinsson, verkefnastjóri Flugklasans Air 66N, segir í viðtali við Morgunblaðið að alls muni ferðaskrifstofan bjóða upp á flug frá Amsterdam til Akureyrar yfir fimm vikna tímabil, flogið verði tvisvar í viku, alls 10 ferðir.
Beint flug frá Akureyri og út í heim hefur verið að taka við sér að nýju undanfarið en flogið var beint frá Akureyri til Tenerife 18. október síðastliðinn. Á næstu vikum verða þrjú flug beint til Tenerife til viðbótar. Þá verður einnig beint flug til Skotlands í nóvember og Færeyja í febrúar.
UMMÆLI