Prenthaus

Frægar myndir af Akureyri málaðar í leiðangri Gaimard

Frægar myndir af Akureyri málaðar í leiðangri Gaimard

Joseph Paul Gaimard var franskur læknir og náttúruvísindamaður. Hann stýrði vísindaleiðangri á Norðurslóðum á fjórða áratug 19. aldar og ferðaðist þá um Ísland. Hann kom tvisvar hingað til lands, sumrin 1835 og 1836 og dvaldist í rúma fjóra mánuði bæði árin. Í fyrri leiðangrinum hafði hann náttúrfræðinginn Eugene Robert sér við hlið. Í þeim seinni kom sjö-manna hópur vísinda-, fræði- og listamanna frá Frakklandi til að rannsaka, skrá og teikna myndir af því sem fyrir augu bar. Leiðangursmennirnir komu við á Akureyri.

Eftir fyrri leiðangurinn tókst Gaimard að vekja athygli samlanda sinna á Íslandi. Vísbendingar eru um að sjálfur Frakklandskonungur, Lúðvík Filippus, hafi haft bein áhrif á ákvörðun franskra stjórnvalda um að rannsaka þessa ókönnuðu eyju í Norður-Atlantshafi. Miklu fé var kostað í því skyni að tryggja mannafla og fullkominn tækjabúnað í þágu seinni leiðangursins. Konungi hefur sjálfsagt verið kunnugt um gjöful fiskimið við Íslandsstrendur og því talið eftir einhverju að slægjast. Leiðangurinn var þó ekki einstakur, hann var hluti af metnaðarfullri áætlun Frakka um að rannsaka gjörvalla Norður-Evrópu.

Í hópnum sem kom til Akureyrar var landslagsmálari að nafni Auguste Mayer. Í ferðinni hingað norður málaði Mayer myndir sem nánast hvert mannsbarn á Íslandi þekkir, m.a. myndir af elsta hluta Akureyrar, Laxdalshúsi og Möðruvöllum í Hörgárdal. Myndirnar úr leiðangrinum eru fjölmargar og ekki aðeins af landslagi. Einnig er um að ræða myndir af dýrum, kirkjugripum og fólki. Fleiri málarar komu að gerð myndanna en Mayer. Nokkur nöfn eru nefnd til sögunnar en Auguste Mayer er án nokkurs vafa það nafn sem flestir hafa heyrt nefnt.

Leiðangur Joseph Paul Gaimard kemur við sögu í hlaðvarpsþáttum Grenndargralsins, Leitin að Grundargralinu.

Heimildir:

Grenndargralið

Friðrik Rafnsson. (1985, 13. apríl). Í sálarkompaníi með Páli Gaimard. DV, bls. 22-23.

UMMÆLI