Framandi stjörnur og ljúfir tónar í tilefni 10+1 árs afmæli Hofs

Framandi stjörnur og ljúfir tónar í tilefni 10+1 árs afmæli Hofs

Í tilefni 10+1 árs afmælis Menningarhússins Hofs verður frumflutningur á vídeóverkinu Catalysis #2 sem gert var með afmælið í huga. Verkið, sem er eftir Heimir Hlöðversson og varpað verður utanhúss á Hof, á að endurspegla sköpunarkraftinn í Hofi og er einhverskonar óður til sköpunarinnar – dansandi norðurljós, framandi stjörnur, atóm, blóðkorn og svarthol. Frumflutningur er föstudagskvöldið 27. ágúst kl. 21 en þá mun höfundur verksins vera á staðnum. Einnig verður verkið flutt á sama tíma laugardagskvöld og sunnudagskvöld.

Í tilefni afmælisins verður einnig líf inni í Hofi í formi lifandi tónlistar á BARR kaffihúsi alla afmælishelgina 27.-29. ágúst. Tónlistarfólkið Andrea Gylfadóttir, Pálmi Gunnarsson, Kristján Edelstein og Halldór Gunnlaugur ríða á vaðið klukkan 17 á föstudeginum. Sveitin mun leika þekkta blús og djass standarda og hefja þannig afmælishelgina.

Í hádeginu á laugardeginum mæta systkinin Örn og Ösp Eldjárn á BARR og spila lög af komandi plötu sinni Blood Harmony í bland við hugljúf íslensk dægurlög. Systkinin eiga bæði nokkuð langan tónlistarferil að baki og voru um tíma saman í þjóðlaga og bluegrass hljómsveitinni Brother Grass.

Sama dag, klukkan 17, er komið að Tríó Akureyrar. Tríóið er skipað tónlistarmönnunum Valmari Väljaots píanó- og fiðlusjentílmanni, Jóni Þorsteini Reynissyni nikkara og Erlu Dóru Vogler allsherjarsöngkonu. Þríeykið mun leika íslensk og erlend dægurlög, sem og flesta aðra tónlist sem hönd á festir.

Dagskráin er samstarfsverkefni Menningarfélags Akureyrar og Akureyrarbæjar.

UMMÆLI

Sambíó