Framkvæmdum í Listagilinu að ljúka í biliMyndir: Akureyri.is

Framkvæmdum í Listagilinu að ljúka í bili

Framkvæmdum við endurbætur á gönguleiðum í Listagilinu er að ljúka í bili og er því gilið orðið opið að fullu fyrir umferð. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.

„Við viljum koma fram þökkum fyrir tillitsemina og skilninginn meðan á þessum framkvæmdum stóð. Áætlað er að framkvæmdir hefjist aftur í haust og verður þá farið í að endurnýja hellulögnina frá Rub23 og niður fyrir 66° norður, einnig verður torgið fyrir framan Hótel KEA endurgert þar sem lögð verður ný hellulögn og torgið malbikað að hluta,“ segir í tilkynningu bæjarins.

Sjá einnig: Endurnýjun gangstétta og torgs í Listagilinu

Framkvæmdir hafa nú staðið yfir síðan í apríl og er búið að leggja nýtt malbik niður Listagilið að Drottningarbraut. Einnig hefur verið lögð ný hellulögn frá torginu fyrir framan hótel KEA að horni Kaupvangsstræti 23 og frá bílastæðinu þar fyrir ofan og upp að gatnamótum Eyrarlandsvegar.

Á vef bæjarins segir að framkvæmdirnar séu liður í því að draga úr umferðarhraða og auka vægi gangandi vegfarenda á svæðinu. Aðgengi að Kaupvangsstræti 19 og 21 hefur verið lagað með bættri aðkomu að inngöngum og snjóbræðsla lögð í gönguleiðina að húsunum við Kaupvangsstræti 19-23.

UMMÆLI