Framtíð samgangna á Akureyri

Framtíð samgangna á Akureyri

Jóhann F. K. Arinbjarnarson skrifar:

Sé ekið eftir Þjóðvegi 1 frá Vesturlandi til Suðurlands þarf maður að keyra u.þ.b. 23 kílómetra vegalengd innan þéttbýlismarka Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Og þrátt fyrir að leiðin liggi svona langa vegalengd gegnum fjölmennasta svæði landsins og að útfrá Þjóðveginum liggi ótal vegir sem að tengja saman borgarsvæðið og landsbyggðina þá eru á allri þessari vegalengd engin umferðaljós. Það eru á allri þessari leið einungis tíu hringtorg (ef ég man rétt) auk nokkurra mislægra gatnamóta sem að ekki þarf að hægja hraðann fyrir. Og nánast hvergi, alla leiðina er hámarkshraðinn undir 80km/klst.
Nánast sömu sögu er að segja ef keyrt er frá Keflavík, í gegnum borgina, og þaðan út á land. Sé keyrt eftir Reykjanesbraut og þaðan útá Vesturlandsveg þá þarf maður að stansa á nákvæmlega einu umferðarljósi alla leiðina. Allar aðrar mætingar eru annaðhvort mislæg gatnamót eða hringtorg og mest alla leiðina er löglegt að keyra á 80 kílómetra hraða. 

En aki maður eftir Þjóðvegi 1 í gegnum Akureyri, þéttbýlisstað sem hefur íbúafjölda sem er minni en 9% af íbúafjölda Höfuðborgarsvæðisins þá þarf maður að keyra framhjá fjórum umferðarljósum. Og einnig tveimur gangbrautarljósum. Og það á vegalengd sem er innan við sjö kílómetrar. Og hámarkshraðinn er 50 til 70 km/klst. 

  Fólksfjölgun og alþjóðaflugvöllur

Íbúum Akureyrar er að fjölga. Tvöþúsund íbúar hafa bæst við á síðastliðnum átta árum. Haldi þessi fjölgun stöðug þá mun mannfjöldinn nálgast 22.500 eftir áratug og kannski fara yfir 30.000 árið 2050. Á sama tíma er ekkert lát á ásókn ferðamanna til landsins. Og með stækkun flugvallarins og auknu millilandaflugi verður því að gera ráð fyrir að meira að segja enn fleiri útlendingar sem og íslendingar leggi leið sína gegnum Akureyri þó ekki nema til þess að komast í eða úr flugi. Sem þýðir að fyrr heldur en síðar mun núverandi gatnakerfi bæjarins með sínum fjórum umferðarljósum á Glerárgötu og Hörgárbraut (Þjóðvegi 1!) verða gersamlega úrelt.
Margir, að mér meðtöldum, kannast eflaust nú þegar vel við tafirnar sem að núna virðast verða á hverju einasta síðdegi á Tryggvabrautinni. Nú langar mig að biðja lesandann að ímynda sér annað eins nema eftir allri Glerárgötu og Hörgárbraut. Til þess að koma til móts við þessa þróun þyrftu öll umferðaljósin að víkja fyrir annaðhvort hringtorgum eða mislægum gatnamótum (ef plássið leyfir).
Ég myndi reyndar ganga svo langt að segja að gatnakerfið sé nú þegar komið til ára sinna í ljósi þess að enginn af þeim stöðum þar sem að fyrir eru umferðarljós eða hringtorg eru gatnamótin við Leirunesti. En það getur reynst hreinasta martröð að koma úr austurátt (eða vera á leið austur) þegar að mikil umferð er. Og þetta vandamál mun bara versna og versna eftir því sem flugum til og frá Akureyri fjölgar. Eins eru í bænum nokkur önnur gatnamót þar sem að nú eru í gildi hægri-reglur eða biðskildur þar sem að einnig er löngu orðin sár þörf á hringtorgi eða umferðaljósum. Að mati höfundar er sennilega enginn staður á landinu þar sem að umferðarskipulag er jafn illa staðlað og á Akureyri. 

  Þjóðvegurinn og Selfoss

Selfoss byrjaði að byggjast upp seint á 19. öld vegna tilkomu Ölfusárbrúarinnar. Í meira en öld lögðu ferðalangar leið sína gegnum Selfoss á leið sinni um Suðurland eða á leið til höfuðstaðarins og Vesturlands. Og eftir meira en heila öld af stöðugri fólksfjölgun og stóraukinni ferðaþjónustu fóru íbúar Selfoss að átta sig á að sú staðreynd að Þjóðvegurinn lægi beint í gegnum bæinn þeirra væri orðin meira til vandræða heldur en heilla. Og þess vegna hefur núna verið tekin sú ákvörðun að nýja brúin yfir Ölfusá verði reist þannig að þjóðvegurinn muni í raun færast útfyrir sjálfan bæinn. Höfundur tekur þessari ákvörðun fagnandi enda finnst honum Selfoss oftast vera meira hraðahindrun heldur en áningastaður.
Í ljósi þess hvernig þróunin er, hvað varðar umferðarþunga og ferðaþjónustu þá verður maður kannski að velta því fyrir sér hvort það að koma á hringtorgum á Þjóðveginum innan bæjarmarka Akureyrar sé kannski einungis skammtímalausn. Kannski ætti til lengri tíma að kanna hvort að hægt sé að hreinlega leggja nýjan Þjóðveg fyrir utan bæinn eða við bæjarmörkin. En þó getur verið að það sé hreinlega ekki hægt þar sem að styðsta leiðin fyrir fjörðinn muni alltaf liggja beint gegnum bæinn, beint gegnum miðbæinn. En hversu mikils virði verður þessi styðsta leið ef umferðarþunginn fer að setja ljótann svip á ásýnd miðbæjarins eins og gerðist á Selfossi.
Það er því nauðsynlegt að bæjaryfirvöld, sem og sveitastjórnir nærliggjandi sveitafélaga vinni að gerð langtímaáætlunar fyrir framtíðarþróun þjóðvegarins þar sem hann liggur gegnum Eyjafjörð. 

Höfundur situr í stjórn Félags Ungs Framsóknarfólks á Akureyri og nágrenni. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó