Múlaberg

Frisak og Scheel neituðu að afhenda Jörundi kort af Akureyri

Frisak og Scheel neituðu að afhenda Jörundi kort af Akureyri

Heiðurinn að elsta og merkilegasta uppdrætti af Akureyri eiga landmælingamennirnir Hans Frisak og Jacob Scheel. Kortið gerðu þeir árið 1809. Dvöl þeirra á Akureyri var liður í metnaðarfullu verkefni danska hersins í að gera siglingar út af Íslandsströndum hættuminni. Frisak og Scheel var ætlað að ferðast víða um land og halda áfram við strandmælingar landsins sem staðið höfðu yfir í nokkur ár.

Á kortinu af Akureyri er landslagið dregið upp með afar nákvæmum hætti. Greina má mannvirki af öllu mögulegu tagi sem og allskyns kennileiti í náttúrunni. Til þess að allar mælingar yrðu sem nákvæmastar slógu þeir saman fjöldamargar vörður úr timbri á brekkubrúnunum ofan kaupstaðarins og víðar til að setja upp mælinet sitt. Efst á kortinu hafa þeir teiknað inn Rögnvaldarhól, hæð eina í Naustahverfi þar sem nú er Klettatún. Í miðjum Rögnvaldarhól teiknuðu þeir þríhyrning með punkt í miðju en þannig voru mælipunktarnir táknaðir. 

Rétt norðan undir Rögnvaldarhól eru hinar gríðarstóru mógrafir þar sem almenningur sótti eldsneyti sitt um aldir. Á kortinu sést hvernig Búðarlækur rennur inn í miðjar mógrafirnar en hann kemur ofan úr Naustatjörn. Lækurinn heldur áfram í beygjum og sveigjum niður brekkurnar. Á leið sinni sker hann skurði og gil í landslagið og dregur efnið með sér til sjávar.  Á þeim stað þar sem lækurinn rennur í Eyjafjörðinn hefur Akureyrin hlaðist upp með tímanum.  Kortið frá 1809 sýnir þessa landmótun ágætlega og mun betur en við getum lesið úr nýjum kortum enda hefur landslagið á Akureyri umbreyst þó nokkuð á rúmum 200 árum.

Á kortinu sést einnig hvernig Frisak og Scheel hafa dregið upp bæina Eyrarland og Naust með útihúsum sínum og túngörðum, sitt hvoru megin Búðargilsins. Þeir létu ekki nægja að draga upp hús kaupstaðarins heldur gerðu þeir jafnframt grein fyrir efnivið þeirra. Vínrauði liturinn táknar t.d. timburhús en græni torfhús. Þá hafa þeir samviskusamlega dregið upp glænýja kartöflugarða Levers kaupmanns norðan við Búðarlækinn rétt ofan eyrinnar en strandlínan sem sést á kortinu er hér um bil þar sem Hafnarstræti liggur í dag.

Þetta sama ár og Frisak og Scheel gerðu kortið umtalaða, um miðjan júlímánuð, ferðaðist Jörundur hundadagakonungur norður yfir heiðar. „Konungurinn“ fékk almennt góðar móttökur norðan heiða en mætti þó andstöðu þeirra sem hann síst vildi eiga í útistöðum við. Nóttina áður en hann kom til Akureyrar, dvaldi hann á Möðruvöllum í Hörgárdal. Eitthvað hefur honum sinnast við húsbóndann, Stefán Þórarinsson  amtmann í norður- og austurumdæmi, því Jörundur dró upp sverð og hótaði honum lífláti. Engum varð þó meint af. Sýslumaðurinn Gunnlaugur Briem kom til fundar við Jörund þegar hann kom til Akureyrar og lét óánægju sína í ljós með fyrirætlanir hans. Til að kóróna allt fyrir vesalings Jörund var kortið af Akureyri og önnur kort þeirra Frisak og Scheel, sem hann hugðist gera upptæk, hvergi sjáanleg. Kortin geymdu mikilvægar upplýsingar um öruggar siglingarleiðir við landið og því mikilvæg gögn fyrir danska ævintýramanninn. Frisak og Scheel voru farnir vestur á land til frekari mælinga þegar Jörund bar að garði og var hann allt annað en sáttur með að grípa í tómt á Akureyri.

Þann 26. júlí skrifaði Jörundur bréf til amtmanns Vesturamts, Stefáns Stephensen, þar sem hann óskaði eftir því að hann hefði upp á landmælingamönnunum í því skyni að gera öll gögn þeirra upptæk. Ef þeir létu ekki gögnin af hendi með góðu, yrðu þeir handsamaðir og meðhöndlaðir sem herfangar. Stefán beið ekki boðanna, ritaði bréf til Frisak og Scheel og kom fyrirmælum Jörundar á framfæri. Landmælingamennirnir stóðu í lappirnar. Frisak svaraði Jörundi í bréfi þann 6. ágúst fyrir hönd þeirra Scheel þar sem kom fram að þeir neituðu að láta nokkuð af höndum. Jörundur sætti sig ekki við afstöðu landmælingamannanna og bréfaskrif héldu áfram. Frisak og Scheel létu þó ekki segjast. Stuttu seinna lauk valdaránstilraunum „verndara og hæstráðanda“ Íslands. Jörundur hélt af landi brott til Bretlands þann 25. ágúst 1809.

Andstaða Stefáns Þórarinssonar amtmanns, Gunnlaugs Briem sýslumanns og Hans Frisak og Jacob Scheel landmælingamanna við fyrirætlanir Jörundar urðu til þess að þeim var vikið með beinum eða óbeinum hætti frá störfum. Þann 30. ágúst skrifaði Stefán bréf til Frisak og Scheel þar sem hann skýrði frá því „að þeir sé aptur settir inn í stöðu sína eins og hann sjálfur og Gunnlaugur Briem“.

Það sem er kannski merkilegt fyrir okkur sem nú lifum og hrærumst á söguslóðum Frisak, Scheel, Jörundar og Gunnlaugs er að kort landmælingamannanna af Akureyri hefur varðveist.

Byggt á samantekt Arnars Birgis Ólafssonar og bók Jóns Þorkelssonar Saga Jörundar Hundadagakóngs frá árinu 1892 í útgáfu Bókaverslunar Gyldendals.

Landmælingamennirnir Frisak og Scheel og Jörundur hundadagakonungur koma við sögu í hlaðvarpsþáttum Grenndargralsins, Leitin að Grundargralinu.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó