Fyrirtæki bjóða grunnskólakrökkum í leikhús

Fyrirtæki bjóða grunnskólakrökkum í leikhús

María Pálsdóttir rekur HÆLIÐ setur um sögu berklanna í Eyjafjarðasveit. Í gær varpaði hún fram hugmynd á Facebook síðu sinni. Hún stakk upp á því að fyrirtæki á Akureyri byðu börnum í leikhús, einum árgangi á hverju ári.

„Skólar hafa ekki efni á því og foreldrar í bekkjarráðum mega helst ekki skipuleggja neitt sem kostar meira en 500 svo allir geti tekið þátt óháð efnahag heimila. En hugsið ykkur fegurðina í þvi að fyrirtæki bæjarins kæmu þarna inní… HÆLIÐ ríður á vaðið og býður 4. bekk Hrafnagilsskóla, Þelamerkurskóla og Valsárskóla á Galdragáttina sem verður frumsýnd 5. október hjá LA,“ skrifar María á Facebook.

Viðbrögðin við hugmyndinni hafa verið mögnuð og nú þegar hafa Bústólpi, Lemon, Hamborgarafabrikkan og Grand Þvottur ákveðið að taka þátt í verkefninu.

Krakkar í fjórða bekk hjá Glerárskóla, Hrafnagilsskóla, Þelamerkurskóla, Valsárskóla, Síðuskóla, Oddeyrarskóla og Hlíðarskóla hafa því þegar fengið boð á Galdragáttina en enn vantar fyrirtæki til þess að bjóða Naustaskóla, Giljaskóla og Lundaskóla. Miðað við fyrstu viðbrögð má þó gera ráð fyrir því að það reddist fljótlega.

Sambíó

UMMÆLI