Fyrrum bæjarfulltrúi segir Akureyrarbæ stríð á hendur vegna spillingar

siggigumm

Sigurður Guðmundsson / Mynd: Karl Eskil

Sigurður Guðmundsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi, sakar núverandi bæjarfulltrúa Akureyrarbæjar um spillingu í pistli sem hann birti á Facebook síðu sinni í gærkvöld. Þar fjallar hann um kaup KEA svf. á hlut Akureyrarbæjar í Tækifæri hf. Fjárfestingarfélagi. Hann segir leynd hafa verið yfir kaupunum og kallar þau ,,innherjaviðskipti eins kristaltær og þau geta orðið“. Hann líkir kaupunum við eftirminnilega sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun hf.

Á heimasíðu Tækifæri hf. er því lýst sem fjárfestingarfyrirtæki sem fjárfesti í nýsköpun á Norðurlandi. Ýmis fyrirtæki eiga hlut í Tækifæri en stærstu eigendurnir eru KEA svf., Akureyrarbær og Stapi líffeyrissjóður segir á einnig síðunni.

Sigurður tekur það fram í pistli sínum hver hagnaður Tækifæris var síðustu 2 ár og kom það fram í Viðskiptablaðinu í maí á þessu ári. Árið 2014 var hagnaðurinn um 90 milljónir króna og 2015 um 384 milljónir króna. Heildareignir félagsins voru í lok árs 2015 því um 995 milljónir.

Sigurður segir Akureyrarbæ hafa selt hlut sinn á 120 milljónir til KEA bakvið luktar dyr. Hann segir KEA hafi falast eftir að kaupa hlut bæjarins á þessu verði og að Dan Brynjarsson, fjármálastjóri Akureyrarbæjar, hafi kynnt sér söluna en ekki haft neitt út á hana að setja, hvorki verð né framkvæmd. Sigurður segir jafnframt í pistli sínum skaða bæjarfélagsins mikinn með þessari sölu. Hluturinn í Tækifæri, 16,3%, sem hafi verið seldur á 120 milljónir sé á bókfærðu virði 144 milljónir og miklu hærra verð hefði getað fengist fyrir söluna ef hún hefði verið gerð í opnu ferli. Hann segir það á huldu hvað hafi gerst rétt fyrir áramót þegar salan var gerð, því nokkrum dögum seinna var methagnaður fyrirtækisins gefinn út, þessar 384 milljónir sem félagið skilaði af sér 2015. Ef félagið myndi skila slíkum hagnaði 2 ár í röð myndi hagnaðarhlutur Akureyrarbæjar vera 125 milljónir eða 5 milljónum hærri en söluverðið. Sigurður kemur einnig inn á það að honum þyki Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, vanhæfur til að koma að sölunni, þar sem hann sé skrifstofustjóri Stapa líffeyrissjóðs, sem er einn stærsti hluthafi Tækifæris hf.

Sigurður lýkur pistli sínum meðal annars á orðunum: ,,Ég segi bænum stríð á hendur þar til einhver axlar ábyrgð á þessum hroða. Fyrir það fyrsta að hafa ekki boðið hlutinn til sölu í opnu ferli og fengið mögulega mun hærra verð.“

Færslu Sigurðar Guðmundssonar má lesa í heild sinni HÉR.

UMMÆLI