Fyrsta flug Transavia milli Hollands og Akureyrar

Fyrsta flug Transavia milli Hollands og Akureyrar

Fyrsta flugvél Transavia með ferðamenn á vegum Voigt Travel kom mánudaginn 27. maí frá Rotterdam. Þetta er fyrsta flugið af 16 hjá Transavia í sumar til höfuðstaðar Norðurlands. Þetta kemur fram á vef Markaðsstofu Norðurlands.

Þar segir að farþegar Voigt Travel, BBI Travel og Transavia hafi fengið óvæntan glaðning við innritun þar sem þeir fengu gjafabréf fyrir skál af íslensku skyri á flugvellinum í Rotterdam. Um borð beið svo glaðningur frá Transavia og Voigt Travel. Strax eftir lendingu var flugvélin hyllt með heiðursboga úr vatni og í flugstöðinni tóku opinber sendinefnd og fjölmiðlar hlýlega á móti farþegunum.

Um Voigt Travel af vef Markaðsstofu Norðurlands:

Voigt Travel er hollensk ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í ævintýraferðum til nyrstu hluta Evrópu. Það er sú ferðaskrifstofa í heiminum sem býður upp á flest bein flug til heimskautasvæðisins í Evrópu. Voigt Travel býður upp á ferðir til átta áfangastaða í Lapplandi í Finnlandi og Svíþjóð, í Norður-Noregi og á Íslandi, bæði á sumrin og veturna, sem gerir þetta svæði sífellt aðgengilegra fyrir ferðamenn sem vilja upplifa eitthvað sérstakt á ósnortnum áfangastað. Voigt Travel vill verða númer eitt á Norðurlöndunum, og flugferðum og samstarfsaðilum þess í Norður-Evrópu fjölgar með ári hverju.

„Við bjóðum Voigt Travel og viðskiptavini þeirra velkomna til Norðurlands. Með opnun þessarar nýju gáttar til Íslands um flugvöllinn á Akureyri býðst ferðamönnum nýr og spennandi valkostur þegar þeir heimsækja landið,“ segir Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri á Markaðsstofu Norðurlands.

„Með því að lenda á miðju Norðurlandi bjóðast tækifæri til að sjá marga fallegustu staði Íslands og upplifa norðurslóðir í sinni tærustu mynd, allt frá öflugasta fossi Evrópu og yfir í hvalaskoðun við Heimskautsbauginn.

Vikulegt flug Transavia fyrir Voigt Travel milli Rotterdam og Akureyrar í sumar skiptir sköpum fyrir okkur og þróun okkar sem áfangastaðar. Við erum mjög ánægð með samstarfið við Voigt Travel sem veitir gestum okkar tækifæri til að komast í tæri við alla þá ósviknu og spennandi upplifun sem Norðurland hefur upp á að bjóða.“

UMMÆLI

Sambíó