Fyrsta frumsýning á 100 ára afmæli Leikfélags Akureyrar

Fyrsta frumsýning á 100 ára afmæli Leikfélags Akureyrar

Leikfélag Akureyrar frumsýnir nýtt íslenskt leikrit Núnó og Júnía fyrir fjölskyldur og ungt fólk laugardaginn 18. febrúar í Hamraborg í Hofi. Verkið er 322 sviðsetning Leikfélagsins sem verður 100 ára en félagið var stofnað þann 19. apríl. 1917.

Núnó og Júnia gerist í fjarlægri framtíð í landinu Kaldóníu. Hinn ungi Núnó er mesta afreksmanneskjan í Kaldóníu og fyrirmynd allra íbúa landsins í hreysti og dugnaði. Mottó Núnós er að gera betur, gera enn betur og toppa það svo. Í Kaldóníu er ekkert pláss fyrir þá sem  ekki standast kröfur samfélagsins. Enda eru allir í Kaldóníu árangursmældir á hverjum degi af “Heilanum”. Einn daginn hrynur veröld Núnós þegar hann uppgötvar að hluti af honum er orðinn ósýnilegur! Hann hefur veikst af „Þokunni“, hinni illvígu plágu sem ógnar Kaldóníu og íbúum þess.  Núnó verður að leyna því að hann sé kominn með „þokuna“ því annars verður hann numin af brott af Þokusveitinni.  Núnó hefst handa við að leita sér lækningar áður en hann verður „þokunni“ að bráð og verður alveg ósýnilegur!  Hjálpin berst honum úr óvæntri átt og ferðalagið verður til þess að Núnó kynnist sjálfum sér og heiminum alveg upp á nýtt.

Verkið tekur á upplifun fjölda ungmenna og barna sem ekki ná að standa undir ströngum kröfum samfélagsins um útlit, árangur og áhrif. Það tekur einnig á þeirri ógn sem þessu unga fólki stafar af því að ná ekki í raun að mynda tengsl við aðrar manneskjur og ná að sjá fegurðina í fjölbreytileika manneskjunnar.

Leikritið er úr smiðju Sigrúnar Huldar Skúladóttur og Söru Martí Guðmundsdóttur. Þær eru einnig höfundar leikgerðar Pílu Pínu sem sló rækilega í gegn á síðasta leikári í sviðsetningu leikfélags Akureyrar og Sinfónord í Hamraborg. Sara Martí leikstýrði jafnframt uppsetningunni og hefur fengið til liðs við sig stóran hluta þess listræna teymis sem skapaði undraheim Pílu. Núnó og Júnía er mikið sjónarspil hlaðið leikhústöfrum og sjónhverfingum. Það er tónlistarmaðurinn margrómaði Stefán Örn Gunnlaugsson (Íkorni) sem  semur tónlistina í verkinu. Ingi Bekk sem hannaði myndheim og myndböndin í Pílu Pínu hannar lýsingu og myndband við sýninguna  en Ingi hefur nýverið lokið vinnu við að rómaða uppfærslu  á Ofviðri Shakespeare.

Í verkinu leika þrír leikarar ásamt stórum hópi aukaleikara. Þau Alexander Dantes Erlendsson, Bjarni Snæbjörnsson  og  Dominque Gyða Sigrúnardóttir.

Alexander  og Dominque Gyða sem leika titilhlutverkin eru að stíga sín fyrstu skref og er Núnó og Júnía þeirra fyrsta verkefni í atvinnuleikhúsi.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó