Fyrsta íslenska bókin um skóla án aðgreiningar

Út er komin bókin Skóli margbreytileikans: Menntun og manngildi í kjölfar Salamanca, og er hún fyrsta íslenska bókin um skóla án aðgreiningar. Í bókinni fjalla sautján fræðimenn um hugmyndina og hugsjónina um skóla og samfélag án aðgreiningar út frá ólíkum sjónarhornum. Bókin svarar kalli tímans um betri skilning á skólastarfi og stefnumótun sem hefur lýðræði, réttlæti og gæðakennslu fyrir öll börn að leiðarljósi í samfélagi sem einkennist af margbreytileika.

Hermína Gunnþórsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, er ein þriggja ritstjóra bókarinnar, auk þess sem Halldóra Haraldsdóttir og Rósa Kristín Júlíusdóttir, fræðimenn við háskólann, eiga kafla í bókinni.

Árið 1994 komu fulltrúar 92 ríkisstjórna saman á heimsráðstefnu í borginni Salamanca á Spáni og samþykktu yfirlýsingu um skóla án aðgreiningar og í kjölfarið tóku ríki um allan heim upp þessa stefnu í einni eða annarri mynd. „Íslenskir skólar hafa aðlagað sig að þessari stefnu með einum eða öðrum hætti og þó svo að skiptar skoðanir séu um ágæti stefnunnar og framkvæmd, þá hefur hún stuðlað að lýðræðislegra skólastarfi og samfélagi og ekki síst vakandi umræðu um skóla og samfélag án aðgreiningar. Bókin varpar ljósi á þessa þróun frá ólíkum sjónarhornum íslensks skólastarfs og samfélags,” segir Hermína.

Í tilefni af útgáfu bókarinnar bauð Rannsóknastofa um skóla án aðgreiningar til hófs í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands þann 18. apríl þar sem forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, var afhent fyrsta eintakið.

Ritstjórar bókarinnar eru Dóra S. Bjarnason, Hermína Gunnþórsdóttir og Ólafur Páll Jónsson. Háskólaútgáfan gefur bókina út.

Mynd og frétt af unak.is

Sambíó

UMMÆLI