Fyrsta jarðgerðarvélin sett upp við verslun Samkaupa 

Fyrsta jarðgerðarvélin sett upp við verslun Samkaupa 

Samkaup hefur komið upp jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun Krambúðarinnar í Mývatnssveit. Vélin breytir lífrænum úrgangi í jarðvegsúrgang á aðeins einum sólarhring og allur jarðvegurinn sem kemur úr vélinni verður nýtt í nærumhverfinu. Gengið hefur verið frá samkomulagi við Skóla- og leikskólasvið Reykjahlíðar um að nemendur á svæðinu nýti jarðveginn í ræktun á grænmeti og til uppgræðslu á sínu nærumhverfi.

Jarðgerðarvélin er staðsett inni á lager Krambúðarinnar í Mývatnssveit og mun leikskólinn Ylur í Mývatnssveit mun nýta jarðveginn til ræktunar grænmetis og á grænu svæðin í kringum skólann eða þar sem þörf þykir. Í leikskólanum eru 19 börn á aldrinum 1- 5 ára og er umhverfisvitund og útikennsla stór hluti af skólastarfi nemenda og passar þetta verkefni því einkar vel inn í þá vinnu.

Sem eigandi Nettó, Kjörbúðar, Krambúðar og Iceland hafa Samkaup einblínt á þau svið sjálfbærni sem skilað gætu mestum árangri og er matarsóun þar ein af stærstu áskorunum matvöruverslana. Samkaup spornar með ýmsum hætti gegn matarsóun með því að selja vörur á síðasta söludag á lægra verði og með samstarfsverkefnum þar sem matvæli í góðu standi en á síðasta snúningi er komið t.d. til Hjálpræðishersins og í frískápa frekar en að honum sé hent.

„Við erum mjög stolt af þessu verkefni og það er auðvitað alveg frábært að leikskólabörn í nágrenni við verslunina geti notað úrganginn í sitt starf og til þess að bæta umhverfið. Auðvitað er það óhjákvæmilegur fylgifiskur í okkar starfsemi að einhver matvæli fara til spillis en við leggjum mikla áherslu í að flokka þau matvæli svo allur úrgangur skili sér á réttan stað. Með jarðgerðarvélinni getum við tekið þessi matvæli og fundið þeim tilgang með því að breyta þeim í nýtanlega jarðveg á 24 klukkustundum,“ segir Bergrún Ósk Ólafsdóttir verkefnastjóri umhverfis- og samfélags hjá Samkaupum.

„Við hvetjum önnur fyrirtæki að taka þetta auka skref með okkur. Það er eitthvað svo ótrúlega skemmtilegt að molta og sjá hringrásina fara heilan hring innan samfélagsins.“

Allur hugur og drifkraftur er að vera leiðandi í úrgangsstjórnun á landsvísu

Þetta er fyrsta jarðgerðarvélin sem sett er upp við verslun Samkaupa, en hugmyndin er að fleiri vélar verði settar upp við verslanir fyrirtækisins um land allt og þannig tryggja betri hringrásarnýtingu matvæla. Verkefnið hluti af samstarfi við fyrirtækið Pure North um heildstæða ráðgjöf í úrgangsstjórnun verslana Samkaupa, og hluti af metnaðarfullum markmiðum fyrirtækisins sem stefna að því að vera leiðandi afl á sviði hringrásar og sjálfbærni í matvöruverslun.

„Að auki höfum nú þegar farið af stað í aðrar breytingar t.d. með ítarlegri greiningu á sorplosun og sorpflokkun í fyrirtækinu öllu. Mælingar hafa sýnt fram á að flokkun okkar á sorpi er orðin meiri og með auknu gagnsæi og betri eftirfylgni er hægt að gera enn betur í flokkun og nýta betur það sem til fellur. Þá er samstarfið við skóla- og leikskólasvið Reykjahlíðar einstaklega skemmtilegt, þar sem börnin munu geta ræktað eigið grænmeti úr moltunni og lært í verki hversu mikilvægt það er að flokka lífrænan úrgang og hugsa um umhverfið,“ segir Bergrún.


UMMÆLI

Sambíó