Fyrsta rennsli í bjórböðunum á Árskógssandi

Ester Líf í fyrsta bjórbaðinu á Íslandi

Nú styttist í opnun á bjórheilsulind Bruggsmiðjunnar Kaldi á Árskógssandi. Stefnt er að opnun 1. júní næstkomandi. Framkvæmdir hafa verið á fullu og í dag var fyrsta rennsli í böðunum.

Bjórheilsulindin er sú fyrsta sinnar tegundar á Norðurlöndunum en þessi aðferð er þekkt í Tékklandi og Slóveníu meðal annars. Í henni eru 7 bjórböð sem eru fyllt af bjór, vatni, humlum og geri sem á að vera mjög gott fyrir húðina. Bjórvatnið sjálft er ekki drykkjarhæft en bjórdæla verður við hvert bað sem hægt er að drekka á meðan fólk liggur í baðinu.

Fyrsta rennsli bjórbaðanna var í kvöld. Það var hún Ester Líf Ólafsdóttir, starfsmaður Bruggsmiðjunnar, sem var fyrst til að prófa böðin. Hún er dóttir Ólafs Þrastar Ólafssonar stjórnarformanns Bruggsmiðjunnar sem varð 50 ára í dag.

Ester sagði það mikinn heiður að vera fyrst til að prófa og að það hafi verið rosalega huggulegt í baðinu.

Sambíó

UMMÆLI