Prenthaus

Fyrsti Janúar. Kveðja, Krasstófer og Ormur

Fyrsti Janúar. Kveðja, Krasstófer og Ormur

Það undursamlega við hið ógeðfellda, gjöriði svo vel, og gleðilegt nýtt ár.

Hann kveikti á kertum og setti plötu á fóninn. Það var singullinn „The Final Countdown“ með „On Broken Wings“ á b-hliðinni. Hann var einfaldur, jaðraði á við barn en vaxinn eins og bergrisi. Hún var subbuleg Sandra Bullock með brókarsótt. Hún hafði verið að féflétta hann síðan um áramótin, þegar tívolíbomburnar skörtuðu sínu fegursta, og nú voru áramótaeldarnir að kvikna að nýju. Honum var sama því hann var við það að springa eins og skoteldur. Loðnir líkamar og hlandblettir á brókunum. Englarnir á himnum gengu berserksgang við því sem blasti við þeim, þeir vildu meir. Kvöldið og nóttin voru þeirra, enda bæði getin af svartnættinu. Börn foreldra sinna. Hún, gyðja hafsins, komin á bak á gamla rauð sem hneggjaði út í hið óendanlega. „Elskaru mig þótt ég sé eins og úlfur í sauðagæru.“ „Ég elska þig ofar öllu, þú svíkur mig og mér misbýður, en þegar þú handfjatlar mig, þá er ég eins og grautur í örmum þínum.“

Nágrannarnir voru komnir undir borð og bjuggust við næsta skjálfta. Mamman grét og spurði manninn hvort að þessi hafi verið yfir 5 á Richter. Eiginmaðurinn svaraði að þessi hljóti að hafa verið yfir 5 að stærð, og útskýrði svo nánar fyrir konu sinni að Richter skalinn væri úreltur og ekki notaður, allar þær upplýsingar sem við fáum nú eru að stærðargráðu en ekki á Richter skalanum, þó svo að Charles Francis Richter hafi lagt grunninn að þeim skölum sem notaðir hafa verið í seinni tíð. Börnin grétu sáran, og konan bað um skilnað.

Maðurinn í næsta húsi fylgdist með öllum því sem á gekk í gegnum sjónaukann sinn. Hans eftirlætis iðja var að njósna um fólkið í næsta húsi. Tvíbýlið eins og hann kallaði það. Hann hafði óstjórnanlega þörf til þess að fylgjast með þeirra daglega lífi og skrifaði niður athafnir þeirra í rauða minnisbók sem var við það að fyllast. Þetta gerði hann vegna þess að hann var afbrigðilegur.

Móðir mannsins bjó með honum. Hún hafði verið að borða eitur, til þess að sleppa úr þeirri jarðnesku prísund sem hún lifði í. Ganga til liðs við englana sem hún talaði við á kvöldin. Þeir voru æstir í kvöld, yfir hverju vissi hún ekki, en það hlaut að vera mikilfenglegt sjónarspil í boði Drottins vors sjálfs.

Svo vaknaði ég með öndina í hálsinum fyrsta janúar, hvergi nærri ósnortinn. Ég mun aldrei gleyma þeim á þessari stjörnubjörtu nóttu, illa sofinn og tárvotur. Martraðir drauma minna.

UMMÆLI